Hanna Málmfríður Harðardóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri við leikskólann Heiðarsel. Var ráðning hennar samþykkt á fundi bæjarráðs 26. maí. Þá var Árdís Hrönn Jónsdóttir ráðin leikskólastjóri Tjarnarsels. Ráðning hennar var samþykkt á sama fundi.

Hanna Málmfríður er með leikskólakennarapróf frá Fósturskóla Íslands árið 1985. Hún lauk B.Ed. gráðu í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands árið 2013 og M.Ed. í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana árið 2015.
Hanna Málmfríður hefur starfað óslitið innan leikskólastigsins frá árinu 1987, bæði sem leikskólakennari og lengst af sem stjórnandi. Hún hóf sinn starfsferil sem stjórnandi í leikskólanum á Eiðum. Hún vann einnig í mörg ár sem leikskólastjóri leikskólans Undralands á Flúðum. Þá vann hún að uppbyggingu og mótun leikskólans Skógarlands á Egilstöðum. Undanfarin fjögur ár hefur hún starfað við leikskólann Lyngholt á Reyðarfirði og frá síðastliðnu hausti sem leikskólastjóri.
Umsækjendur um stöðu leikskólastjóra Heiðarsels voru: Hanna Málmfríður Harðardóttir, Ólöf Kristín Guðmundsdóttir, Pálína Hildur Sigurðardóttir og Ragna Kristín Árnadóttir.

Árdís Hrönn Jónsdóttir hefur verið ráðin leikskólastjóri við leikskólann Tjarnarsel. Var ráðning hennar samþykkt á fundi bæjarráðs í morgun.
Árdís Hrönn er með leikskólakennarapróf frá Fósturskóla Íslands árið 1991. Hún lauk Dipl.Ed. í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á nám og kennslu ungra barna frá Kennaraháskóla Íslands árið 2007 og M.Ed. í menntunarfræðum með áherslu á mál og læsi frá Háskóla Íslands árið 2008.
Árdís Hrönn hefur starfað innan leikskólastigsins frá því hún lauk námi sem leikskólakennari og hefur gegnt ýmsum leiðtogahlutverkum innan leikskólans. Hún starfaði sem verkefnisstjóri hjá Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntvísindasvið Háskóla Íslands um tveggja ára skeið. Auk faglegrar forystu hefur Árdís Hrönn sinnt hlutverki aðstoðarleikskólastjóra við leikskólann Heiðarsel og um sex ára skeið við leikskólann Hjallatún.
Umsækjendur um stöðu leikskólastjórastöðu Tjarnarsels voru: Árdís Hrönn Jónsdóttir, Pálína Hildur Sigurðardóttir og Ragna Kristín Árnadóttir.

Ljósmynd af Hönnu Málmfríði   Ljósmynd af Árdísi Hrönn