Rafræn íbúakosning í Reykjanesbæ

Rafræn íbúakosning um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík fer fram 24. nóvember til 4. desember 2015. Í breytingunni fólst aðallega sameining sjö iðnaðarlóða við Berghólabraut í eina við Berghólabraut 8, vegna byggingar kísilvers á lóðinni.

Íbúakosningin fer alfarið fram á netinu og notast verður við rafrænt kosningakerfi sem Þjóðskrá Íslands hefur yfirumsjón með, ásamt gerð rafrænnar kjörskrár. Kjósendur þurfa að nota Íslykil frá Þjóðskrá Íslands eða rafræn skilríki frá Auðkenni til að geta kosið. 

Auðkenni kjósanda er aðgreint frá kosningahluta íbúakosningakerfisins með því að auðkenningarhlutinn skilar dulkóðaðri kennitölu til kosningahlutans. Þegar atkvæði hafa verið greidd eru þau dulkóðuð.

Boðið verður upp á aðgang að tölvum í Bókasafni Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, 230 Reykjanesbæ á meðan á kosningu stendur. Safnið er opið kl. 9:00 – 18:00 virka daga og kl. 11:00 – 17:00 laugardaga.

Opnaður hefur verið upplýsingavefur vegna íbúakosningar, ibuakosning.is, þar sem hægt er að lesa sig til um ástæður kosninga, fyrirkomulag og úrvinnslu. Síðar í vikunni verða sjónarmið bæjaryfirvalda og sjónarmið þeirra sem eru mótfallnir breytingunni sett á vefinn.

Kosning hefst kl. 02:00 þann 24. nóvember og lýkur kl. 02:00 þann 4. desember 2015.