Reykjanes Geopark og Wappið í samstarf

Einar Skúlason framkvæmdastjóri Wappsins og Róbert Ragnarsson formaður stjórnar Reykjanes Geopark og bæjarstjóri Grindavíkur undirrituðu á föstudag samstarfssamning sem felur m.a. í sér að Reykjanes svæðið verði nefnt Reykjanes Geopark í Wappinu. Reykjanesbær er innan Reykjanes Geopark.

Wappið (Walking app) er nýtt gönguleiðaapp fyrir snjallsíma sem verður gefið út á ensku og íslensku þann 5. nóvember nk. Leiðarlýsingarnar verða byggðar á gps punktum, með kortagrunni frá Samsýn og auk þess verða upplýsingapunktar á hverri leið sem veita upplýsingar í texta og oft með mynd um það sem ástæða þykir til að segja frá í náttúru og umhverfi, úr þjóðsögum eða af lífi fólks á svæðinu fyrr og nú. Stokkur ehf. sér um forritun Wappsins og það verður tengt við tilkynningakerfi 112 appsins sem eykur öryggi ferðafólks.

Samningurinn sem var undirritaður á föstudag felur einnig í sér að Reykjanes Geopark muni bjóða upp á þrjár leiðarlýsingar í Wappinu, sem verða ókeypis fyrir notendur. Að auki munu þessir tveir aðilar í sameiningu setja niður markmið um fjölda og staðsetningu leiðarlýsinga á Reykjanesi, sem verða skráðar í Wappið og seldar notendur gegn vægu verði. Markmiðið er að setja upp töluvert margar leiðarlýsingar og fá höfunda leiðarlýsinga á svæðinu til liðs við verkefnið.

Stefna sveitarfélaganna og ferðaþjónustunnar á Reykjanesi er að leggja áherslu á jarðminjar svæðisins eins og flekaskilin, gígaraðir, háhitasvæði, jarðvarmann og Bláa Lónið. Áhersla er lögð á náttúruna og ferðamennsku sem veitir vellíðan. Hreyfing, slökun, hugleiðsla og spa eru aðalsmerki svæðisins. Stefnan er að auka vitund íbúa og gesta á sérstöðu Reykjanesskagans í jarðfræðilegu tilliti og koma sögu svæðisins á framfæri. Þetta er m.a. gert með aukinni fræðslu og styrkingu innviða ferðaþjónustunnar.

Reykjanes Geopark er sjálfseignarstofnun frá fimm sveitarfélögum og sex hagsmunaðilum sem eru aðilar að stofnuninni. Sveitarfélögin fimm eru Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar. Ásamt sveitarfélögunum eru Heklan - atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Ferðamálasamtök Reykjaness, Bláa Lónið, Þekkingarsetur Suðurnesja, Keilir - miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs auk HS Orku aðilar að Reykjanes Geopark.