Reykjanesbær býður aðgang að matjurtagörðum

Það er fátt ánægjulegra en rækta og borða sitt eigið grænmeti en það eru ekki allir sem búa svo vel að eiga matjurtagarð. Reykjanesbær kemur til móts við þann hóp með því að bjóða upp á aðgang að matjurtagörðum.

Berglind Ásgeirsdóttir garðyrkjufræðingur hjá Reykjanesbæ segir á að nú fari að renna upp rétti tíminn til að sá út sínu eigin grænmeti vilji fólk fá væna uppskeru í haust. „Við bjóðum upp á aðgang að tveimur matjurtagörðum, annars vega í Grófinni, þar sem bærinn hefur lengi verið með matjurtagarð og nú einnig neðan við Seljudal í Innri Njarðvík, til að koma til móts við íbúa þar í grennd.“ Fólk kemur með sín eigin fræ og útsæði en hægt er að komast í góða mold til ræktunar við matjurtagarðana. „Að rækta sitt eigið grænmeti hefur margar kosti í för með sér, aðra en uppskera. Ræktun er bæði holl og góð útivera og tilvalið er að gera sáninguna að skemmtilegu fjölskylduverkefni í sumar.“

Hægt er að panta sér reit í síma 420-3200 hjá Þjónustumiðstöð og er árgjaldið 3.000 kr.