Heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks. Verkefnið Heilsueflandi vinnustaður er samvinnuverkefni VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins og var sett á laggirnar 2019. Verkefnið hefur það að markmiði að fyrirbyggja kulnun og draga úr líkum á því að fólk falli brott af vinnumarkaði vegna heilsubrests. 

Reykjanesbær gerðist formlega þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi vinnustaður nýverið og var ráðhúsið skráð til þátttöku í verkefninu og hvetur aðrar stofnanir sínar til þátttöku. Í tilefni þess að ráðhúsið er nú formlega orðið þátttakandi í verkefninu hófst vegferðin á hvetjandi heilsufyrirlestri fyrir starfsfólk ráðhússins með Lukku Pálsdóttur eiganda Greenfit um hvernig við getum hámarkað almenna heilsu og hreysti.

Með því að gerast Heilsueflandi vinnustaður mun Reykjanesbær leggja enn frekari áherslu á bætta líðan og vellíðan starfsfólks á næstu misserum. Aðrar stofnanir og fyrirtæki í sveitarfélaginu eru hvött til þess að taka þátt í verkefninu og stuðla að heilsueflingu á sínum vinnustað en hægt er að skrá sína stofnun eða fyrirtæki inn á www.heilsueflandi.is. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vefsíðu Embætti landlæknis.

Ásdís Ragna Einarsdóttir
Verkefnastjóri lýðheilsumála