- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Tilgangur Uppbyggingarsjóðs Suðurnesja er að styrkja menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefni á Suðurnesjum. Uppbyggingarsjóður Suðurnesja er samkeppnissjóður og bárust umsóknir í 64 verkefni í ár sem valið var úr. Auglýst er opinberlega eftir umsóknum og þær metnar út frá markmiðum og áherslum sem fram koma í Sóknaráætlun Suðurnesja.
Úthlutunarhátíð var haldin í Stapa í Hljómahöll föstudaginn 21. nóvember. Úthlutunarnefnd Uppbyggingarsjóðs úthlutaði alls 53 milljónum til 43 verkefna. Þar af hlutu 3 verkefni frá Reykjanesbæ styrk úr sjóðnum, samtals 3,7 milljónir og þrjú samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum samtals 5,25 miljónir.
Skrásetning munnlegra heimilda um rokksöguna
Verkefnið felst í að taka viðtöl við einstaklinga sem annað hvort voru hluti af íslenskri popp- og rokksögu eða eiga minningar tengdar tónlistarupplifun. Ólíkt hefðbundnum nálgunum verður áherslan á áheyrendur og upplifun þeirra. Stefnt er að 20 viðtölum sem verða varðveitt í Byggðasafni Reykjanesbæjar og sýnd í nýrri sýningu Rokksafns Íslands í Hljómahöll í mars 2026.
Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð kr. 800.000.
Barnamenning í Reykjanesbæ
Á BAUN- barna- og ungmennahátíð eru börn, ungmenni og fjölskyldur settar í forgang með fjölbreyttum og skemmtilegum hætti. Markmið hátíðarinnar eru meðal annars að auka lífsgæði og vellíðan barna og íbúa Reykjanesbæjar og skapa vettvang fyrir börn og fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð kr. 2.500.000
Endurheimt – björgun og skráning verka
Listasafn Reykjanesbæjar tók við verkum Vilhjálms Bergssonar (f. 1937) sem bjargað var úr húsi hans í Grindavík 2023. Safnið varðveitir nú verkin, sem eru í misjöfnu ástandi og krefjast umfangsmikillar skráningar, þrifa og forvörslu. Ævistarf Vilhjálms er merkilegt vitnisburð um íslenska myndlist 20. aldar og verkefnið tryggir varðveislu og rannsókn á þeim arfi til framtíðar.
Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð kr. 400.000
Kynning á bókmenntaarfinum
Markmið verkefnisins er að kynna bókmenntaarfinn, minna á gamla og góða höfunda og bókmenntaverk, kynna yngri höfunda og verk þeirra, leggja áherslu á læsi og mikilvægi lesturs og auka með því þekkingu almennings á bókmenntum og töfraheimi þeirra og efla um leið menningarlífið á svæðinu.
Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð kr.1.000.000.
Virkniþing Suðurnesja
Virkniþing Suðurnesja er viðburður sem sveitarfélögin á Suðurnesjum standa fyrir. Yfir 30 aðilar frá félagasamtökum, íþróttafélögum, ríki og sveitarfélögum verða með kynningarbása um framboð þeirra á virkni og tómstundum á Suðurnesjum. Virkniþingið er hugsað fyrir öll þau sem starfa með íbúum á svæðinu og sérstaklega þau sem veita íbúum utan vinnumarkaðar ráðgjöf og stuðning. Virkniþingið er engu að síður opið öllum íbúum þar sem má sjá fjölbreytt framboð á virkni á Suðurnesjum.
Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð kr. 750.000.
Menningarverkefnið Safnahelgi Suðurnesja er á þriggja ára samningi og fær nú úthlutað annað ár samningsins eða kr 3.500.000.