Reykjanesbær styrkir gerð örþáttanna „Hvað getum við gert?“

Hvað getum við gert.
Hvað getum við gert.

Reykjanesbær er einn af styrktaraðilum þáttanna „Hvað getum við gert?“ sem er sjálfstætt framhald sjónvarpsþáttaraðarinnar „Hvað höfum við gert?“ sem sýnd var á RÚV árið 2019 og fjallaði um stöðuna í loftslagsmálum. Nýju þættirnir sem verða á dagskrá RÚV á mánudögum í vetur eru stuttir og hnitmiðaðir og fjalla um hinar fjölbreyttu lausnir við loftslagsvandanum sem þegar eru til staðar eða fyrirsjáanlegir. Í hverjum þætti verður tekið fyrir eitt, afmarkað viðgangsefni og því gerð ítarleg skil.

Reykjanesbær hefur mikinn metnað til þess að gera vel í loftslagsmálum og draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stefna Reykjanesbæjar tekur mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem sjálfbærni og loftslagsmál skipa stóran sess. Að auki mun á næstu vikum líta dagsins ljós ný metnaðarfull umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar þar sem meðal annars er stefnt að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 í starfsemi sveitarfélagsins.

Á síðasta ári var fyrsta skrefið tekið með innleiðingu á kolefnisbókhaldi frá Klöppum. Mæling á kolefnisspori frá starfsemi sveitarfélagsins hjálpar til við að setja markmið um losun og fylgjast með árangri. Jafnframt gerir það Reykjanesbæ kleift að kolefnisjafna sig á hverju ári.

Reykjanesbær er stoltur þátttakandi í þessu metnaðarfulla verkefni þar sem markmiðið er að vekja fólk til meðvitundar um þessi málefni með faglegri umfjöllun og tillögum að lausnum.

Sérstök vefsíða  hefur verið sett upp til að halda utanum umfjöllunarefni þáttanna. Hvetjum við alla til að skoða hana ásamt því að fylgjast með þáttunum í vetur svo við getum öll hjálpast að og nýtt þær lausnir sem eru þegar í boði til að takast á við þann margþætta vanda sem loftslagsváin er.