Sæþór Elí sigraði á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Kamilla Ósk, Sæþór Elí og Krista Gló á verðlaunaafhendingunni
í gær. Ljósmynd: Sigurbjörg Róbertsd…
Kamilla Ósk, Sæþór Elí og Krista Gló á verðlaunaafhendingunni
í gær. Ljósmynd: Sigurbjörg Róbertsdóttir

Sæþór Elí Bjarnason nemandi í Myllubakkaskóla sigraði á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem fram fór í Bergi í gær. Í öðru sæti var Kamilla Ósk Jensdóttir Holtaskóla og Krista Gló Magnúsdóttir Njarðvíkurskóla í því þriðja. Þetta var í 20. sinn sem Stóra upplestrarkeppnin fór fram á Suðurnesjum.

Það var barnakór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem hóf dagskrána. Að loknum ávarpi Helga Arnarsonar sviðsstjóra Fræðslusviðs hófst upplestur. Fyrst lásu börnin textabrot og ljóð eftir höfunda keppninnar og að lokum ljóð að eigin vali. Höfundar keppninnar í ár eru Steinunn Sigurðardóttir og Andri Snær Magnason. Milli atriði var boðið upp á tónlistaratriði frá nemendum úr 7. bekkjum grunnskólanna sem eru í hljóðfæranámi.

Stóra upplestrarkeppnin hófst veturinn 1996-7 með þátttöku barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Njarðvíkurskóli var sá skóli á Suðurnesjum sem reið á vaðið og hélt fyrstu keppnina hér í bæ strax árið eftir. Næstu árin bættust fleiri skólar við og fljótlega voru allir skólar á Suðurnesjum þátttakendur í Stóru upplestrarkeppninni. Reykjanesbær og Sandgerði halda sína lokahátíð sameiginlega.

Myndir með fréttinni tók Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri Akurskóla.

Hópurinn sem samanstór af fulltrúum grunnskólanna í Reykjanesbæ og grunnskóla Sandgerðis   Tónlistaratriði frá nemendum úr 7. bekkjum grunnskólanna

Tónlistaratriði frá nemendum úr 7. bekkjum grunnskólanna   Sviðsstjóri Fræðslusviðs flutti ávarp