Safnahelgi á Suðurnesjum

Frá 50 ára afmælissýningu Kvennakórs Suðurnesja í Duus Safnahúsum. Sýningunni lýkur 11. mars.
Frá 50 ára afmælissýningu Kvennakórs Suðurnesja í Duus Safnahúsum. Sýningunni lýkur 11. mars.

Söfn á Suðurnesjum bjóða í tíunda sinn upp á sameiginlega dagskrá helgina 10. – 11. mars n.k.  og kallast þessi árlegi viðburður Safnahelgi á Suðurnesjum. Markmiðið hefur frá byrjun  verið að kynna fyrir landsmönnum hin fjölbreyttu söfn og sýningar sem sveitarfélögin á Suðurnesjum bjóða upp á.  Þetta er liður í menningarferðaþjónustu svæðisins og upplagt fyrir íbúa höfuðborgarinnar að renna í bíltúr hingað suður eftir um helgina og upplifa eitthvað af því fjölmarga sem hér verður í boði. Íbúar Suðurnesja eru að sjálfsögðu líka hvattir til að kíkja við og endilega að taka með sér gesti.  Söfn, setur og sýningar á svæðinu eru mörg og fjölbreytt og margir skemmtilegir viðburðir verða á döfinni. Athygli er vakin á því að ókeypis er inn á öll söfnin að þessu tilefni og um leið á þá dagskrá sem er í boði á hverjum stað nema annað sé tekið fram.  Sveitarfélögin  fimm á Suðurnesjum hafa unnið sameiginlega að undirbúningi dagskrárinnar og er verkefnið stutt af  Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Sjá má alla dagskrána á safnahelgi.is.

Dagskráin er afar fjölbreytt;  alls kyns sýningar, tónleikar, fyrirlestrar og margs konar uppákomur.  Söfn, safnvísar og sýningar nálgast á annan tuginn  og fjölbreytni safnanna er í raun einstök á ekki stærra svæði. Sjósókn og vinnsla sjávaraflans er kynnt á þremur söfnum í þremur mismunandi bæjarfélögum, Byggðasafninu í Garði, Kvikunni í Grindavík og Bátasafninu í Duus Safnahúsum. Náttúran er áberandi í Þekkingarsetri Suðurnesja og í Gestastofu Reykjaness jarðvangsins í Duus Safnahúsum og að sjálfsögðu í Orkuverinu Jörð í Reykjanesvirkjun.  Í Duus Safnahúsum eru 8 sýningarsalir með fjölbreyttum sýningum um sögu, listir og náttúru og þar verða t.d. leiðsagnir og gjörningar í tengslum við tvær sýningar á sunnudeginum.  Óhætt er líka að nefna Slökkviliðsminjasafn Íslands í Safnamiðstöðinni í Ramma og sýningar Páls Óskars og Bjögga í Rokksafninu í Hljómahöllinni. Nokkur einkasöfn  verða líka opin almenningi m.a. í Sandgerði og Garðinum og málþing um Stefán Thorarensen tónskáld verður haldið í Kálfatjarnarkirkju á Vatnsleysuströnd. Menningarvika Grindavíkur hefst þessa sömu helgi og þar verður fjöldi viðburða alla helgina og er öllum m.a. boðið á opnunarviðburðinn í Grindavíkurkirkju á laugardeginum.

Við bjóðum alla velkomna og hvetjum fjölskyldur til að koma og njóta þess sem í boði er.  Fjöldi góðra veitinga- og kaffihúsa er í bæjunum og víða er list- og handverksfólk einnig með sölu á munum sínum. Sjá nánari dagskrá á safnahelgi.is.

Nánari upplýsingar veita eftirfarandi fulltrúar sveitarfélaganna: