Sálumessa Mozarts í Duus Safnahúsum

Sálumessa eftir Mozart sem enginn ætti að láta framhjá sér fara
Sálumessa eftir Mozart sem enginn ætti að láta framhjá sér fara

Requiem (Sálumessa) eftir W.A. Mozart flutt á tvennum tónleikum í Bátasal Duus Safnahúsa
Óperufélagið Norðuróp í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar

Norðuróp í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar er að ráðast í það stórvirki að flytja Requiem (Sálumessu) eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Sálumessan er um
það bil 50 mínútna langt tónverk fyrir fjóra einsöngvara, kór og sinfóníuhljómsveit og er ein allra þekktasta sálumessa tónbókmenntanna. Verkið er flutt árlega um allan
heim, en afar sjaldan hér á landi.

Í þessari tónleikauppfærslu verður verkið flutt af 25 manna sinfóníuhljómsveit, tæplega 50 manna kór einsöngsmenntaðra söngvara, langt kominna söngnemenda
og þjálfaðra áhugasöngvara, sem skipta svo með sér einsöngsatriðum. Hljómburðurinn í Bátasal Listasafns Reykjanesbæjar hentar Sálumessunni mjög vel
og lýsing verður viðeigandi og glæsileg. Stjórnandi er Jóhann Smári Sævarsson, konsertmeistari Una Sveinbjarnardóttir og ljósameistari Magnús Helgi Kristjánsson.

Norðuróp stofnaði fyrir nokkrum árum nokkurs konar óperustúdíó í Reykjanesbæ í samvinnu við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Hljómahöll, með uppfærslu á óperunni „Brúðkaup Fígarós“ eftir W.A. Mozart. Verkefnið var opið öllum söngvurum og söngnemendum Tónlistarskólans sem og efnilegum söngvurum hér á
Suðurnesjum og annars staðar að af landinu.

Eftir mjög vel heppnaða og fjölsótta uppfærslu Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á söngleiknum „Fiðlarinn á þakinu“ eftir J. Bock sem sýndur var í
Stapa, Hljómahöll haustið 2019 í tilefni af 20 ára afmælum beggja, og þann mikla áhuga þeirra sem tóku þátt og annarra söngvara og hljóðfæraleikara af svæðinu,  þáhöfum við ákveðið að nota meðbyrinn og halda þessu jákvæða samstarfi Norðuróps og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar áfram og ráðast í flutning þessa magnaða verks, Sálumessu eftir W.A. Mozart, sem við efumst ekki um að muni falla í góðan jarðveg hjá Suðurnesjamönnum.

Miðasala á  https://tix.is/is/event/12961/mozart-requiem/