Samráðsfundur um verkefnið Öruggari Suðurnes fór fram í samkomuhúsinu í Sandgerði miðvikudaginn 7. maí. Verkefnið er svæðisbundið samráð um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum og er hluti af sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga undir forystu ríkislögreglustjóra.
Á fundinum var sjónum sérstaklega beint að málefnum barna og ungmenna á Suðurnesjum. Fjölbreytt dagskrá einkenndi fundinn, þar sem fagfólk víðs vegar af svæðinu kom að málefninu frá ólíkum sjónarhornum – menntun, þátttöku í tómstundum, félagslegri stöðu, heilsu, öryggi og vernd.
Kynntar voru niðurstöður úr íslensku æskulýðsrannsóknunum og þær ræddar í tengslum við fimm víddir farsældar barna. Fjölmargir sérfræðingar tóku þátt í pallborðsumræðum og fluttu erindi, þar á meðal fulltrúar úr skólakerfi, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu, íþróttahreyfingu og ungmennaráðum á svæðinu.
Í gegnum daginn var jafnframt safnað hugmyndum, athugasemdum og tillögum frá fundargestum með stafrænum hætti, sem framkvæmdateymi verkefnisins tekur með sér í áframhaldandi vinnu að því að efla öryggi og velferð barna og ungmenna á Suðurnesjum.
Reykjanesbær er stoltur þátttakandi í þessu mikilvæga samstarfi og vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra sem lögðu sitt af mörkum á fundinum. Slík samvinna og samráð eru ómetanleg í þeirri sameiginlegu vegferð að skapa öruggara, heilbrigðara og nærandi samfélag fyrir börn og ungmenni á Suðurnesjum.

Hægt er að skoða fleiri myndir á facebook síðu Reykjanesbæjar.