Samstarf barnaverndar og lögreglu frammúrskarandi verkefni

Samvinna barnaverndar- og félagsmálayfirvalda og lögreglunnar á Suðurnesjum í verkefninu Að halda g…
Samvinna barnaverndar- og félagsmálayfirvalda og lögreglunnar á Suðurnesjum í verkefninu Að halda glugganum opnum er dæmi um samvinnu sem skilað hefur góðum árangri.

Samstarf barnaverndaryfirvalda í Reykjanesbæ, Grindavík og Garði, Sandgerði og Vogum og Lögreglunnar á Suðurnesjum í átaki gegn heimilisofbeldi er eitt þeirra framúrskarandi verkefna sem nefnt er í nýútkominni skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD). Samstarfsverkefnið hófst á Suðurnesjum í febrúar árið 2013 en var tekið upp hjá öðrum lögregluyfirvöldum og sveitarfélögum í framhaldi þegar ljóst þótti að það var árangursríkt. Litið var til þess, ásamt lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimilum nr. 85/2011, þegar ríkislögreglustjóri setti verklagsreglur fyrir lögregluna í landinu um heimilisofbeldismál í árslok 2014.

Lögreglunni á Suðurnesjum þótti sýnt að þær aðferðir sem notaðar voru við meðferð heimilisofbeldis voru ekki árangursríkar. Árið 2010 var rannsóknum hætt í 17 af þeim 18 málum sem komu til rannsóknar hjá lögreglunni og það strax hjá rannsóknardeild. Það eru 95% mála.

Í skýrslu OECD er tekið fram að lögregluyfirvöld á Suðurnesjum hafi farið í markvissa rannsókn á vinnulagi sínu við meðferð heimilisofbeldis eftir samþykkt alþingis í júní 2011 á lögum um nálgunarbann og brottvísanir af heimili. Fjórir þættir voru sérstaklega skoðaðir, hvers vegna svo fá mál komust til rannsóknar, hvers vegna nálgunarbanni var sjaldan beitt og af hverju brotaþolar og gerendur fengu lítinn stuðning. Þá var samstarf við hlutaðeigandi aðila á svæðinu sérstaklega skoðað með það að markmiði að bæta vinnuaðferðir. Niðurstaðan varð sú að allt kerfið þyrfti að taka á heimilisofbeldi af mun meiri festu en gert hafði verið.

Glugganum haldið opnum eins lengi og þörf krefur

Samstarfsverkefnið fékk nafnið „Að halda glugganum opnum“ og gengur út á að lögregla, barnaverndar- og félagsmálayfirvöld komi saman að málunum og afli strax eins mikilla upplýsinga og unnt er. Boðinn er stuðningur og bæði brotaþolum og gerendum kynnt þau úrræði sem eru í boði strax í upphafi máls. Þá er málum fylgt eftir, annars vegar með sambandi félagsþjónustu við þrotaþola innan þriggja daga frá atburði og síðan með heimsókn lögreglu og félagsþjónustu að jafnaði innan viku frá atburði. Markmið með þessu verklagi er einnig að gefa út skýr skilaboð til íbúa að Ofbeldi á heimilum er ekki liðið. Þessi aðferðarfræði hefur almennt mælst vel fyrir hjá brotaþolum sem telja sig fá meiri stuðning og ráðgjöf en áður, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum.

Í framhaldinu á þessu verkefni hafa starfsmenn Velferðarsviðs Reykjanesbæjar verið með kynningar á sl. árum í leik- og grunnskóla um heimilisofbeldi, afleiðingar heimilisofbeldis og hvernig bregðast skal við ef börn eða starfsmenn greina frá heimilisofbeldinu. Auk þess kom Inger Ekbom, annar höfundur meðferðarúrræðins Trappan og hélt námskeið árið 2015 fyrir starfsmenn barnaverndar. Trappan er stuðningsúrræði fyrir börn sem búa við eða hafa búið við heimilisofbeldi. Trappan er notuð víðsvegar í Svíþjóð og Finnlandi. Barnavernd Reykjanesbæjar hefur boðið börnum sem hafa orðið fyrir heimilisofbeldi upp á Tröppuna en um er að ræða regluleg stuðningsviðtöl sem eru þrepaskipt. Með Tröppunni hafa börn Í Reykjanesbæ fengið stuðning við að vinna úr þeirri erfiðri lífsreynslu sem þau hafa orðið fyrir.

Eins og staðan er í dag hefur einungis rannsóknum í tveimur málum verið hætt af þeim 62 sem komu upp árið 2015.

Hér má lesa skýrslu OECD í heild