Samþætt heimaþjónusta

Starfsfólk
Starfsfólk

Samvinna stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar og heimahjúkrunar

Þann 10. júní síðastliðinn undirrituðu bæjarstjóri Reykjanesbæjar og forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja þjónustusamning um samstarf milli heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu Reykjanesbæjar. Samstarfið hófst formlega 1. október 2019 og er það byggt á vinnu tveggja starfshópa sem hafa verið að störfum síðan síðla árs 2017.

Fyrri starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að efla og samhæfa þjónustu beggja aðila betur, samhliða tilfærslum verkefna frá heimahjúkrun til félagslegrar heimaþjónustu.

Seinni starfshópnum var falið að útfæra samstarfið. Með samstarfinu er verið að samtvinna heilbrigðisþjónustu og félagslegan stuðning. Markmiðið er að veita örugga, rétt tímasetta og skilvirka, notendamiðaða og árangursríka þjónustu sem er bæði samfelld og samhæfð. Áhersla verður lögð á að þjónustan auki líkur á bættri heilsu og auknum lífsgæðum þjónustuþega. Reynsla sem nú þegar er komin af samstarfinu lofar góðu.