Setning Ljósanætur fyrsta embættisverk nýs bæjarstjóra

Kjartan Már setur Ljósanótt.
Kjartan Már setur Ljósanótt.

Veðrið skartaði sínu allra fegursta þegar um 2.000 grunnskólabörn ásamt elstu börnum leikskólanna í Reykjanesbæ komu saman í 12. sinn til að setja 15. Ljósanæturhátíðina sem er nú formlega hafin.

Það var nýráðinn bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Kjartan Már Kjartansson, sem tók á móti börnunum framan við Myllubakkaskóla og stýrði þessari fallegu og táknrænu athöfn með glæsibrag. Börnin komu fylktu liði íklædd skólalitunum með blöðru í hönd frá 6 grunnskólum og 10 leikskólum bæjarins. Bæjarstjórinn ávarpaði börnin og sagði m.a. að þeirra væri framtíðin og hvert og eitt þeirra skipti máli. Öll væru þau hluti af heild en samt einstök og fjölbreytt. Síðan tóku börnin undir í söng og sungu Meistari Jakob á fjórum tungumálum ásamt Ljósanæturlaginu sem hvert barn kann og söng af lífsins sálar kröftum.

Það var áhrifamikil sjón að horfa á eftir blöðrunum 2.000 til himins og segja má að á þessari stundu yrði framtíðin áþreifanleg og hver einasta blaðra tákn um þá möguleika sem býr í hverju því barni sem þarna var statt. Er nokkuð fallegra?