Síðustu dagskrárliðir Ljósanætur í dag

Margmenni var á hátíðarsvæðinu í gærkvöldi þegar stórtónleikar og flugeldasýning fóru fram og horfe…
Margmenni var á hátíðarsvæðinu í gærkvöldi þegar stórtónleikar og flugeldasýning fóru fram og horfendur stóðu þétt við sviðið.

50 ára árgangurinn setti að venju svip sinn á Árgangagönguna í gær, klæddust lítríkum regnslám og voru áberandi þegar gangan hélt niður Hafnargötu að hátíðarsvæði. Gallhörðustu íbúarnir mættu í gönguna og létu úrhellisrigningu ekki hafa áhrif á sig þegar njóta átti Ljósanæturhátíðar, enda Ljósanótt 20 ára og afmælissöngurinn sunginn af því tilefni. Vel rættist úr veðri þegar líða tók á daginn og fjölmenntu íbúar og gestir að hátíðarsvæði til að hlýða á stórtónleika á sviði og horfa á flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Suðurnes. Greiðlega gekk að rýma hátíðarsvæði undir miðnætti. Enn er nóg að viðburðum eftir til að njóta.

Nokkuð var um ölvun á hátíðarsvæði og við skemmtistaði bæjarins og enn og aftur sannaðist mikilvægi öflugrar gæslu lögreglunnar sem kom fólki fljótt og örugglega til aðstoðar. Barnavernd opnaði athvarf við lögreglustöðina til að sinna börnum undir lögaldri. Gera þurfti hlé á flugeldasýningu í tvíganga þar sem bátar sigldu innan öryggissvæðis og ölvaður maður stakk sér til sunds í smábátahöfn. Björgunarsveitarmaður sem kom manninum til hjálpar slasaðist þegar sá ölvaði réðst að honum og var fluttur á slysadeild.

Í dag er síðasti dagur hátíðarinnar en enn hægt að njóta fjölbreyttra viðburða. Golfarar tóku daginn snemma á opna Ljósanæturmótinu í golfi og pílukastarar verða að fram eftir kvöldi. Sýningar og söfn eru opnar fram eftir degi, hátíð hefst í Höfnum kl. 13:00 í dag þar sem fjölbreytt dagskrá verður borin fram, sterkustu menn Suðurnesja munu keppa á hátíðarsvæði frá kl. 14:00, tvær sýningar á „Manstu eftir Eydísi?“ verða í Stapa kl. 16 og 20, óperusöngkonan Alexandra Chernyshova heldur stofutónleika kl. 16, sannar lygasögur verða sagar af Vellinum á varnarliðssýningu í Gryfjunni Duus Safnahúsum milli 16 og 18 og Bubbi Morthens verður í kvöldmessu í Keflavíkurkirkju sem hefst kl. 20.

Dagskrána í heild má nálgast á www.ljosanott.is

Frá flugeldasýningu gærkvöldsins. Ljósmynd Víkurfréttir

Litríkur 50 ára árgangur við hátíðarsviðið í lok Árgangangagöngu í gær. Ljósmynd Víkurfréttir