Sigurður Sævarsson er listamaður Reykjanesbæjar

Sigurður Sævarsson
Sigurður Sævarsson

Verkefni bæjarstjórnar á hverju kjörtímabili, frá því Reykjanesbær varð til við sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna fyrir 20 árum síðan, hefur verið að útnefna listamann Reykjanesbæjar, en slíkt hafði áður tíðkast hjá Keflavíkurbæ. Útnefningin hefur að jafnaði verið tilkynnt á fjögurra ára fresti á þjóðhátíðardaginn 17. júní.

Þeir sem hlotið hafa nafnbótina listamaður Reykjanesbæjar til þessa eru í réttri röð : Margrét Soffía Björnsdóttir (Sossa), myndlistarmaður, Gunnar Eyjólfsson, leikari, Rúnar Júlíusson, tónlistarmaður og nú síðast Ragnheiður Skúladóttir, píanóleikari.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað á síðasta fundi sínum, þann 3. júní s.l. að tillögu menningarráðs að tilnefna Sigurð Sævarsson, tónskáld, sem næsta bæjarlistamann Reykjanesbæjar.

Sigurður hóf tónlistarnám ungur að aldri, og síðar söngnám, í Tónlistarskólanum í Keflavík. Síðan lá leiðin í Nýja tónlistarskólann í Reykjavík þar sem kennarar hans voru Sigurður Demetz Franzson og Alina Dubik. Sigurður nam bæði söng og tónsmíðar við Boston háskóla og lauk þaðan meistaragráðu í báðum greinum 1997.

Sigurður hefur samið fjölda verka bæði stór og smá. Aðal áhersla hans hefur verið á óperur og kórverk. Má þar nefna óperuna Z-ástarsaga, sem frumflutt var á óperuhátíð Norðuróps 2001 í Reykjanesbæ, óratoríuna Hallgrímspassíu sem frumflutt var í Hallgrímskirkju 2007 og aftur í Ytri-Njarðvíkurkirkju og í Hallgrímskirkju á Kirkjulistahátíð 2010. Var hún í kjölfarið hljóðrituð og gefin út sama ár. Diskurinn var tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í flokknum Sígild og Samtímatónlist. Önnur ópera Sigurðar, Hel, samin við sögu Sigurðar Nordal var flutt í Íslensku Óperunni í samvinnu við Listahátíð 2009. Ári seinna var Sigurður staðartónskáld á Sumartónleikum í Skálholti og samdi af því tilefni Missa Pacis fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit. Verkið var hljóðritað sama ár og gefið út 2011. Þá má nefna Kvæði, verk fyrir einsöngvara og strengjasveit sem frumflutt var á Myrkum Músíkdögum 2011. Sama ár var kórverk hans, Stabat Mater, frumflutt á Ítalíu. Í desember 2012 var verk Sigurðar Jólaóratoría frumflutt í Hallgrímskirkju af kór, einsöngvurum og hljómsveit. Verkið verður flutt aftur í Hallgrímskirkju næsta desember og í kjölfarið hljóðritað.
Nýjasta verk Sigurðar, O crux, verður frumflutt í haust, bæði hér heima og á Norðurlöndum.
Verk Sigurðar hafa verið flutt víða um heima, bæði í Evrópu og í Norður- og Suður-Ameríku.

Reykjanesbær óskar Sigurði innilega til hamingju með nafnbótina.