Sigurvegarar í Lífshlaupinu

Esther Elín Þórðardóttir að taka á móti 50.000 króna gjafabréfi frá Betri bæ
Esther Elín Þórðardóttir að taka á móti 50.000 króna gjafabréfi frá Betri bæ

Í ár var metþátttaka í Lífshlaupinu. Þátttakendur voru alls 22.635 sem eru 4.441 fleiri en í fyrra.

Lífshlaupið hefur fest sig í sessi víða og orðið að innanhúshefð á mörgum vinnustöðum og í skólum hjá Reykjanesbæ. Til þess að hvetja bæjarbúa til þátttöku í Lífshlaupinu og tileinka sér heilbrigða lífshætti hét Reykjanesbær að gefa heppnum þátttakanda í Lífshlaupinu 50.000 króna gjafabréf hjá Betri bæ. Esther Elín Þórðardóttir, kennari í Akurskóla, var dregin úr hópi fjölmargra sem skráðu þátttöku sína í Lífshlaupinu inni á Betri Reykjanesbær og varð himinlifandi með verðlaunin.

Frábær þátttaka okkar fólks í Lífshlaupinu skilaði mjög góðum árangri í keppninni. Akurskóli var í 2. sæti í flokki vinnustaða með 30-69 starfsmenn og í flokki vinnustaða með 70 -149 starfsmenn sigraði Holtaskóli en Njarðvíkurskóli hafnaði í 6. sæti.

Reykjanesbær óskar þátttakendum til hamingju með góðan árangur, eldmóð og þrautseigju.