Skemmtileg stemmning á heimatónleikum

Gestir Bryggjuballs gátu yljað sér á gómsætri kjötsúpu Skólamatar sem útdeildi hundruðum lítra. Ljó…
Gestir Bryggjuballs gátu yljað sér á gómsætri kjötsúpu Skólamatar sem útdeildi hundruðum lítra. Ljósmynd: Víkurfréttir

Mörg hundruð manns söfnuðust saman við Smábátahöfnina í Gróf í gær til þess að gæða sér á gómsætri kjötsúpu í boði Skólamatar og hlusta á tónlist. Bryggjuballið er alltaf meðal vinsælustu dagskrárliða á föstudegi Ljósanæturhátíðar í Reykjanesbæ og þá er gott að ylja sér á súpu og metta áður en tjúttað er.

Það var Bæjarstjórnarbandið sem gaf tóninn á Bryggjuballinu í gær og það þykir eftirtektarvert að þó menn karpi í pólitík er samspilið gott. Bandið hafði fyrr um daginn spilað undir í opinni söngstund í Ráðhúsi. Ungir tónlistarmenn fá gjarnan að spreyta sig á Bryggjuballi og slík varð einnig raunin í gær. Eyþór Ingi steig einnig á svið.
Heimatónleikarnir, Heima í gamla bænum, slógu enn í gegn og í gærkvöldi voru 8 tónlistarmenn eða hljómsveitir sem komu fram á sex heimilum. Í kvöldstyllunni barst ómurinn víða og góð stemmning myndaðist á rölti milli heimila. Þeir sem ekki höfðu fengið nóg af tónlist og tjútti skelltu sér á Júdasarball á Ránni, sem mörgum finnst vera skylda ár hvert.

Í dag verður Árgangaganga niður Hafnargötu að hátíðarsvæði. Hún hefst kl. 13:30 undir dynjandi lúðrablæstri sveita Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Fjölbreytt dagskrá verður um allan bæ fram eftir degi sem nær hámarki á stórtónleikum á stóra sviði frá kl. 20:30. Lofað er skotheldri dagskrá og flugeldasýning verðu að henni lokinni. Þeir sem ekki hafa fengið nóg geta skellt sér á Queen messu í Keflavíkurkirkju sem hefst kl. 23:00.

Sýningar verða áfram opnar í dag og leiktæki frá Sprell eru á hátíðarsvæði, ásamt sölutjöldum. Tjaldsvæði fyrir svefnhýsi er við Myllubakkaskóla sem er miðsvæðis í bænum. Dagskrána má lesa í heild á vefnum http://www.ljosanott.is.