Skemmtilegt samstarf með Félagi eldri borgara á Suðurnesjum

Ungir og aldnir hafa gaman saman.
Ungir og aldnir hafa gaman saman.

Frá haust mánuðum hefur Háaleitisskóli verið í farsælu samstarfi við Félag eldri borgara á Suðurnesjum. Samstarfið hefur falið í sér að Eygló Gísladóttir hefur komið tvisvar í viku og aðstoðað við lestrarkennslu í 1. bekk. Teljum við okkur einstaklega lánsöm að fá svona reynslubolta í lið með okkur þar sem Eygló er þrautreyndur kennari og hefur þekking hennar nýst okkur vel. Einnig höfum við sett af stað spilaklúbb innan skólans þar sem meðlimir úr Félagi eldri borgara á Suðurnesjum koma alla mánudaga og spila félagsvist með nemendum skólans. Mikil tilhlökkun er hjá nemendum að hitta félaga úr Félagi eldri borgara á Suðurnesjum og eiga góðar stundir með þeim.  Nefnd hefur verið stofnuð um samstarfið sem samanstendur af þremur nemendum skólans, aðstoðarskólastjóra og fulltrúum frá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum. Hlutverk hennar er að þróa frekar og hafa verið uppi hugmyndir um að nemendur kenni félögum í Félagi eldri borgara tölvufræði í skiptum fyrir spilakennsluna. Samstarfið hefur verið gæfulegt og ánægjulegt fyrir alla aðila og mikil tilhlökkun til að þróa þetta samstarf enn frekar og gera það að föstum þætti í skólastarfi Háaleitisskóla.