Leikskólamál eru stór málaflokkur hjá hverju sveitarfélagi. Í dag eru 1.066 börn í 12 leikskólum í Reykjanesbæ. Síðastliðin ár hefur íbúafjölgun verið mjög hröð í sveitarfélaginu og ein sú mesta hér á landi eða rúm 60% á síðustu 10 árum. Þessi fjölgun er ánægjuleg en henni fylgja einnig ýmsar áskoranir m.a. í leikskólamálum. Reykjanesbær er jafnframt ungt og fallegt samfélag þar sem rúm 35% íbúa eru á aldrinum 20-39 ára.
Fjölgun leikskólaplássa – verkefni síðustu ára
Til að mæta þessari fjölgun og leitast við að ná yngri börnum inn í leikskóla hefur Reykjanesbær brugðist við með ýmsum hætti sl. 5 ár:
– Tvær nýjar deildir á Holti með 36 nýjum plássum
– Opnun Stapaskóla með 90 nýjum leikskólaplássum
– Ný deild á Tjarnarseli við Skólavegi 1 með 24 nýjum plássum
– Nýr leikskóli við Asparlaut með 30 nýjum plássum
–Verið er að leggja loka hönd á byggingu leikskóla við Drekadal. Í dag er hann starfandi á Ásbrú og mun færa sig þaðan í haust og verða þar í heildina 120 pláss.
Samtals hafa því bæst við 300 leikskólapláss á síðustu fimm árum.
Vegferð í þágu barna og fjölskyldna
Í dag hefja börn leikskólavist á því ári sem þau verða tveggja ára. Innritun fer fram í mars og börn hefja leikskólavist að loknum sumarleyfi. Meðalaldur barna sem hefja leikskólagöngu að loknu sumarleyfi í ár er 25 mánaða. Strax næsta vetur gefst tækifæri til að auka inntökutíðni barna í leikskóla Reykjanesbæjar og lækka aldursviðmið niður í 18 mánaða.
Þegar leikskólamál eru annars vegar þá er mikilvægt að vera með áætlanir til lengri tíma. Þegar horft er til náinnar framtíðar eru uppi hugmyndir um að byggja nýja leikskóla á Garðaselsreitnum, í Ásbrúarhverfi, við Njarðvíkurskóga og á Vatnsnesi til að bregðast við þeirri íbúafjölgun sem við höfum búið við síðastliðinn áratug.
Við megum vera mjög stolt af leikskólunum okkar og öllu því frábæra fagfólki sem þar starfar. Stöðugleiki í starfsmannahaldi hefur verið einkennandi í leikskólunum en uppbyggingin kallar á fleiri leikskólakennara sem reynist talsverð áskorun. Framtíðaruppbygging í leikskólamálum veltur ekki eingöngu á nýju húsnæði heldur einnig á því að það fáist starfsfólk til að manna deildirnar.
Það eru bjartir tímar fram undan í leikskólamálum. Í stefnu Reykjanesbæjar segir að börnin eigi að vera í fyrsta sæti og mun sú stefnuáhersla áfram vísa veginn í átt að öflugri þjónustu fyrir börn og barnafjölskyldur.