Starfsmenn Bókasafns Reykjanesbæjar hafa það að leiðarljósi að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að létta bæjarbúum lífið þessa dagana. Því hefur verið brugðið á það ráð að bjóða tímabundið upp á nýja þjónustu, Bókasnatt, þar sem starfsmenn snattast um allan bæ með bækur og keyra þeim heim til lánþega. Alla virka daga er hægt að panta bók með því að hringja í Bókasafnið milli klukkan 11.00 og 12.00, senda skilaboð á Facebook síðu safnsins, tölvupóst á bokasafn@reykjanesbaer.is eða senda beiðni í gegnum heimasíðu safnsins. Þá er snattast með bækurnar heim til fólks, þær skildar eftir á hurðarhúni eða settar í póstlúgu þar sem það á við.