Starfsfólki Holtaskóla hefur tekist vel upp

Horft yfir Holtaskóla og svæðið í kring. Ljósmynd: OZZO
Horft yfir Holtaskóla og svæðið í kring. Ljósmynd: OZZO

Skólastarf í Holtaskóla hefur verið í stöðugri framþróun í lengri tíma. Við höfum einungis innleitt nýja þætti ef við erum þess fullviss að þeir séu nemendum til framdráttar. Til að svo megi verða, verðum við að meta þessa þætti reglulega og bregðast við ef niðurstöður eru ekki í takti við væntingar.

Það er ánægjulegt að segja frá því að stöðugleiki í niðurstöðum sýnir að okkur hefur tekist vel upp og hvetur það okkur áfram á sömu braut. Dæmi um þætti þar sem okkur hefur tekist að bæta og mynda stöðugleika í kringum eru: Lestur, samræmd könnunarpróf, líðan nemenda, stoðþjónusta, PBS (atferlisstefna skólans), starfsmannamál, verkferlar í hinum ýmsu greinum og þátttaka nemenda í ýmsum viðburðum sbr. Skólahreysti.

Metnaðarfullt starfsfólk

Í Holtaskóla eru um 70 starfsmenn. Þegar markmiðið er að gera vel á hinum ýmsu sviðum er mikilvægt að starfsmenn séu samstíga í átt að þessum markmiðum og vinni sem ein heild. Góðir kennarar eru forsendan fyrir góðum námsárangri undanfarinna ára, en stöðugleiki hefur verið í háu hlutfalli réttindakennara. Við teljum okkur vera ákaflega lánsöm með starfsfólk. Metnaður þess endurspeglast í einlægum og góðum samskiptum sem skilar sér í betri líðan og árangri nemenda.

Þáttur foreldra er veigamikill

Foreldrar gegna lykilhlutverki í skólagöngu barna sinna. Jákvæður stuðningur þeirra við nám og aðra þætti er snúa að skólastarfinu er ómetanlegur. Við höfum í langflestum tilfellum verið í fyrirmyndarsamstarfi við foreldra þegar á þarf að halda. Við hvert tækifæri hvetjum við fólk til að vera í góðu sambandi og koma með ábendingar varðandi starfið. Margar ábendingar hafa verið þarfar og betrumbætt starfið.

Lýðræðisráð nemenda

Mikilvægt er að nemendur geti haft áhrif á skólastarfið með því að koma skoðunum sínum og hugmyndum á framfæri. Stofnað hefur verið lýðræðisráð nemenda sem fjalla á um ýmsa þætti sem snúa að skólastarfinu. Lýðræðisráðið mun m.a. fjalla um stefnu skólans, skólareglur, líðan nemenda, reglur um símanotkun og fleira sem snýr að þeim með einum eða öðrum hætti. Við fórum af stað með þetta starf fyrir tveimur árum og hefur það þegar skilað góðum árangri í tengslum við einelti, nýtt skipulag á bókasafni og tækjareglur.

Næstu skref

Skólastarf er og á að vera lifandi starf. Það er í okkar verkahring að fylgjast vel með því sem rúmast innan skólastarfsins og getur hugsanlega haft jákvæð áhrif á þroska og framgang nemenda okkar. Skólarárið 2016 – 2017 munum við uppfæra stefnu Holtaskóla, kynna stefnuna fyrir öllum í skólasamfélaginu og vinna skipulega eftir henni. Einnig erum við að skoða þátttöku í Heilsueflandi grunnskóla þar sem markmiðið er að stuðla að góðri heilsu og líðan nemenda og starfsfólks skólans. Ákvörðun um þátttöku verður tekin vorið 2017.

Eðvarð Þór Eðvarðsson skólastjóri Holtaskóla