Sunnudaginn 27. apríl kl. 14.00 tekur á Stefán Boulter á móti gestum á sýningunni MANNLEGAR VÍDDIR í Listasafni Reykjanesbæjar en þetta er jafnframt síðasti sýningardagur hennar. Stefán er annar tveggja sem sýnir þar  verk sín. Hinn er Stephen Lárus Stephen.

Stefánarnir báðir hafa sérhæft sig í gerð mannamynda. Báðir eiga þeir erlenda feður og hafa sótt listmenntun sína til annarra landa. Að öðru leyti eru þeir afar ólíkir.

Mannamyndir Stefáns Boulter eru mestmegnis lágstemmd einkasamtöl hans við vini og kunningja, eða einræður hans sjálfs, tilraunir til að laða fram og festa á striga kenndir og hugsanir þeirra sem hann fjallar um, með útlistun á látbragði þeirra. Um leið einkennast mannamyndir hans af dulúð, sem er eins konar staðfesting þess að sérhver manneskja sé „eyland,“ varðveiti innra með sér einkaveröld sem enginn annar hafi aðgang að. Stefán býr og starfar á Akureyri, en hefur sýnt verk sín víða um heim. Hann var einn af aðstoðarmönnum norska listmálarans Odds Nerdrum meðan hann bjó í Reykjavík.

Sýningunni er framar öðru ætlað að sviðsetja samspil ólík viðhorf listamannanna til mannamyndagerðar, í því augnamiði að skerpa á sérkennum beggja. Á sýningunni er einnig að finna formyndir listamannanna að nokkrum sýndum verkum, allt frá frumdrögum til nákvæmra lokaútlistana. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.

Sjá nánar reykjanesbaer.is/listasafn

Sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar er í Duushúsum, Duusgötu 2-8, 230 Reykjanesbæ.
Opið 12-17 virka daga og 13-17 um helgar. Aðgangur ókeypis