Stefna Reykjanesbæjar

Reykjanesbær
Reykjanesbær

Grunnstefna Reykjanesbæjar sem ber yfirskriftina „Í krafti fjölbreytileikans“ tók formlega gildi 1. janúar 2020. Mikil samstaða hefur verið um stefnuna enda kom breiður hópur starfsmanna að gerð hennar auk kjörinna fulltrúa í bæði meiri- og minnihluta. Þá gafst bæjarbúum kostur á að taka þátt í mótun hennar áður en hún var samþykkt einróma á bæjarstjórnarfundi í október 2019. „Í krafti fjölbreytileikans“, vísar til þess hversu mikilvægt það er fyrir stórt sveitarfélag að virkja þann fjölbreytta mannauð sem myndar okkar ört stækkandi samfélag.

Allir starfsmenn fengu formlega kynningu á stefnunni í upphafi árs 2020 og hafa síðastliðið ár nýtt stefnuna við verkefnaval og ákvarðanatöku. Í janúar var svo frumsýnt myndband sem kynnir stefnuna og sýnir með hvaða hætti henni er ætlað að fléttast inn í fjölbreytta starfsemi sveitarfélagsins.


Myndbandið verður jafnframt birt á næstunni með íslenskum, pólskum og enskum texta.

Við gerð stefnunnar voru valin ellefu verkefni sem áttu að hjálpa til við innleiðinguna og markmiðið er að þeim ljúki fyrir árslok 2021. Öll verkefnin ellefu eru þegar farin af stað og einhverjum lokið nú þegar. Auk þessara ellefu verkefna eru eins og gefur að skilja fjöldamörg önnur verkefni, stór og smá, sem styðja við stefnuna með einhverjum hætti. Dæmi um önnur stór verkefni sem falla vel að stefnunni er t.a.m. uppbygging við sundmiðstöðina og innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og sú vegferð að gerast barnvænt samfélag.

Verkefnin 11 og staða þeirra.

  1. Bæta almenningssamgöngur með skilvirkara leiðarkerfi og aukinni tíðni. Kerfið nýtist fyrir íbúa í leik og starfi (lokið)
    Unnið hefur verið að breyttu kerfi almenningssamgangna sem tók í gildi í janúar 2020. Þessar breytingar miðuðu að skilvirkara kerfi og að hægt væri með tiltölulega einföldum hætti að auka tíðni ferða.

  2. Hvatagreiðslur hækki og verði sambærilegar og hjá öðrum stærri sveitarfélögum landsins(í vinnslu)
    Hvatagreiðslur hafa verið hækkaðar í skrefum undanfarin ár og hækkuðu úr 28.000 kr. í 35.000 kr. fyrir árið 2020 og í 40.000 kr. 2021.

  3. Samþætta skólastarf barna í 1.- 4. bekk við íþróttir og tómstundir(í vinnslu)
    Skipaður hefur verið starfshópur sem vinnur að verkefninu. Verkefnið hefur verið skilgreint sem samstarfsverkefni fræðsluráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Starfshópurinn skoðar m.a. hvernig samþættingu frístundaheimila við íþrótta- og tómstundastarf er háttað í dag, hvernig efla megi hana til að stuðla að aukinni þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi og kostnaðarmeta þær tillögur sem settar verða fram.

  4. Áfram verður unnið að uppbyggingu íþróttamannvirkja í góðri samvinnu við íþróttafélög (í vinnslu)
    Æfingasvæði vestan Reykjaneshallar verður klárað á vormánuðum 2021 ásamt útisvæði sundmiðstöðvar. Þá er á dagskrá á árinu 2021 að lagfæra knattspyrnuvöll í Dalshverfi og á Ásbrú. Jafnframt verður hafist handa við framkvæmdir við áfanga tvö í Stapaskóla þar sem bæði íþróttahús og sundlaug mun rísa.

  5. Opna ungbarnadeildir frá 18 mánaða aldri í a.m.k. tveimur leikskólum fyrir haustið 2021 (lokið)
    Okkur hefur miðað vel í þá átt að taka yngri börn inn í leikskólana okkar en frá hausti 2020 hefur okkur tekist að taka inn 18-20 mánaða gömul börn í nokkrum leikskólum sveitarfélagsins s.s. á Akri, Hjallatúni, Vesturbergi, Velli og í Stapaskóla, heildstæðum skóla fyrir 18 mánaða til 15 ára.

  6. Styrkja fjölþætta heilsueflingu 65+ enn frekar til að fleiri íbúar taki þátt (lokið)
    Gerður var samningur við Janus heilsueflingu slf. um fjölþætta heilsueflingu aldurshópsins 65+ sem gildir frá 1. janúar 2019 til 31.desember 2021. Nýjar inntökur í hópinn voru í febrúar 2020 og verða með reglubundnum hætti út árið 2021.

  7. Uppbygging leiksvæða, hreystivalla, grænna svæða og göngustíga til að auka aðgengi íbúa að aðstöðu til útiveru (lokið)
    Verkefni sem falla hér undir eru meðal annars vinna við Njarðvíkurskóga, stígakerfi og þrautabraut fyrir fullorðna, göngustígar við Seltjörn, framlenging og lagfæring á heilsustígum bæjarins auk gróðursetningar trjáa víðsvegar um bæinn.

  8. Lækkun fasteignaskatta til þess að bjóða fyrirtækjum og einstaklingum upp á starfsumhverfi sem stenst allan samanburð (lokið)
    Álagningarhlutfall fasteignaskatts var lækkað sem hér segir:
    A-flokkur var 0,36% 2019 og var lækkað í 0,32% 2020
    C-flokkur var 1,65% 2019 og var lækkað í 1,60% 2020

  9. Auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi (í vinnslu)
    Á síðasta ári var unnið að því að efla þátttöku barna af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi með góðum árangri undir verkefnaheitinu „Vertu memm“. Í framhaldi var skipaður stýrihópur með fulltrúum velferðarsviðs og fræðslusviðs með það hlutverk að halda áfram með verkefnið og víkka það út undir nýju heiti, „Allir með!“. Myndarlegur fjárstyrkur fékkst frá félagsmálaráðuneytinu og er verkefnið þegar komið á fulla ferð.

  10. Hvatt verði til virkra samskipta milli ólíkra hópa m.a. með því að halda þjóðhátíðardag Pólverja hátíðlegan (lokið)
    Síðastliðin tvö ár hefur verið haldin pólsk menningarhátíð í Reykjanesbæ. Hún hefur þótt afar vel heppnuð og hátíðleg. Gert er ráð fyrir að halda þeim viðburði áfram. Það er jafnframt búið að bæta við google þýðingar á vefsíðu Reykjanesbæjar og geta nú íbúar valið á milli níu mismunandi tungumála.

  11. Öll málaleitan íbúa sem má leysa í fyrstu snertingu verði leyst í fyrstu snertingu með öflugri ferlum og aukinni rafrænni þjónustu (í vinnslu)

    • Vinna við ferlagreiningu  og skráningu þeirra í gæðakerfið stendur yfir, þar eru einnig fjölmargar leiðbeiningar sem auðvelda þjónustufulltrúum að veita þjónustu í fyrstu snertingu. Út frá ferlagreiningu hafa verið gerðar ýmsar umbætur á verklagi og samskiptum milli deilda, sem skilar sér í skjótari og betri þjónustu.
    • Eyðublöð hafa verið sett í rafrænt form og stendur yfir vinna til að fjölga þeim enn frekar. Í gegnum verkefnið “Sterkari framlína“ er verið að ráða framlínu félagsráðgjafa til eins árs með það að markmiði að þjálfa þjónustufulltrúa til að leysa sem flest mál í fyrstu snertingu.
    • Unnið er í því að gera mittreykjanes.is notendavænt og setja tengingar við önnur kerfi svo íbúar geti þar fengið sem mestar upplýsingar í fyrstu snertingu.
    • Einnig er verið að innleiða Lean hjá þjónustu & þróun sem hvetur til umbóta, eykur upplýsingaflæði.