- Þjónusta
- Velferð og stuðningur
- Menntun og fræðsla
- Skipulags-, bygginga- og umhverfismál
- Íþróttir og tómstundir
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
- Mitt Reykjanes
Ungmennaráð Reykjanesbæjar mætti til formlegs fundar með bæjarstjórn í vikunni, þar sem hópurinn ræddi málefni sem snerta daglegt líf barna og ungmenna í bæjarfélaginu. Meðlimir ráðsins stigu fram af miklu öryggi og kjarki, fluttu vel unnin ávörp og sýndu svart á hvítu hversu sterk og skýr rödd ungmenna í Reykjanesbæ er.
Rætt var um fjölbreytt málefni, allt frá lýsingu og umhverfi í bænum til símalausra grunnskóla, netöryggis, andlegrar heilsu og menntunar. Fundir sem þessir eru einstakt tækifæri fyrir bæjarstjórn til að heyra hugmyndir, ábendingar og reynslu þeirra sem best þekkja raunveruleika ungs fólks í dag.
Ungmennin lögðu fram hugmyndir sem byggðar voru á raunverulegum áskorunum og eigin reynslu, og fjölluðu af einlægni um þau málefni sem þau telja skipta mestu fyrir börn og ungmenni í bæjarfélaginu. Meðal þess sem kom fram voru skýrar áhyggjur af netöryggi, þar sem Ísey Rún Björnsdóttir minnti á að netheimurinn væri ekki aðeins uppspretta skemmtunar og gagnsemi heldur einnig vettvangur eineltis, rangra upplýsinga og óöryggis. Hún sagði meðal annars: „Netið er ekki aðeins skemmtilegt eða gagnlegt — það getur líka verið hættulegt. Þetta er ekki framtíðin okkar, þetta er nútíminn. Við þurfum að grípa til aðgerða núna.“ Ísey lagði jafnframt áherslu á að samfélagið beri sameiginlega ábyrgð á öryggi barna og ungmenna í stafrænum heimi.
Raddir um félagslíf og jákvæðar breytingar í daglegu lífi unglinga fengu einnig góðan hljómgrunn. Katrín Alda Ingadóttir fjallaði um mikilvægi félagsmiðstöðva og lýsti því hvernig aukin samvera og virkni hafi breytt útivist og frímínútum í skólum: „Frímínúturnar hafa algjörlega breyst! Nú hafa krakkarnir stað til að hittast, spila og hlæja saman í stað þess að sitja í símanum. Samskiptin eru orðin betri og símanotkun minni.“
Einnig var rætt um menntun og lesskilning, þar sem Aðalheiður Ísmey Davíðsdóttir fjallaði um mikilvægi þess að skólakerfið styðji við dýpri lesskilning í námi: „Við berum sameiginlega ábyrgð á því að börn í bænum fái bestu mögulegu menntunina. Með því að færa áhersluna frá hraða yfir í skilning stuðlum við að vandaðar námi og betri framtíðarmöguleikum.“
Fulltrúar bæjarstjórnar hrósuðu hópnum sérstaklega fyrir málefnaleg og áhrifarík erindi og lýstu vilja til enn frekara samtals við ungmennaráðið.
Dagskráin var fjölbreytt og endurspeglaði víðfeðm áherslumál ungmennanna:
Ísey Rún Björnsdóttir – Netöryggi og foreldrafræðsla
Katrín Alda Ingadóttir – Mikilvægi félagsmiðstöðva
Frosti Kjartan Rúnarsson – Lengri opnunartími í sundi
Erna Ósk Leifsdóttir – Nærumhverfið okkar
Guðdís Malín Magnúsdóttir – Andleg heilsa ungmenna
Bryndís Ólína Skúladóttir – Hrós til Reykjanesbæjar
Andrea Elísabet Ragnarsdóttir – Lýsing á Ásbrú
Karen Ósk Lúthersdóttir – Lýsing og ruslatunnur í Njarðvíkurskógum
Aðalheiður Ísmey Davíðsdóttir – Mikilvægi lesskilnings
Björk Karlsdóttir – Símalausir grunnskólar
Linda Líf Hinriksdóttir – Herferð Ungmennaráðs Reykjanesbæjar
Við hvetjum öll til þess að skoða skýrslu sem unnin var úr niðurstöðum barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar 2025. Skýrslan dregur saman hugmyndir og áherslur barna og ungmenna í bænum en hægt er að lesa skýrsluna hér.
Ungmennaráð Reykjanesbæjar er sannarlega einstakur hópur. Þau sýna með orðum sínum, hugrekki og framtakssemi hversu mikilvægt er að hlusta á rödd unga fólksins. Þau eru okkur öllum innblástur!
