Sterkar undirstöður til að styrkja sjávarútveg

Tækifæri í sjávarútvegi og vinnslu voru rædd á íbúafundi með bæjarstjóra Reykjanesbæjar í Höfnum í síðustu viku. Árni Sigfússon hélt því fram að óvíða á landinu væru eins sterk tækifæri til klasamyndunar fyrirtækja tengdum sjávarútvegi og vinnslu því undirstöðurnar væru enn mjög sterkar á Suðurnesjum.

Þar væru innan sama atvinnusvæðis fimm fiskiskipahafnir, stórskipahöfn, alþjóðaflughöfn, á þriðja tug fiskvinnslufyrirtækja sem vinna að fullvinnslu afurða, vistvæn orka; raforka, heitt vatn og gufa, tæknifyrirtæki í sjávarútvegi, smiðjur, skipasmíðar- og viðgerðir, rannsóknaaðstaða, fisktækninám, tæknifræðinám og markaðs- og sölufyrirtæki. Árni nefndi að skipasmíðastöðvum hefur fækkað á undanförnum áratugum með aukinni alþjóðlegri samkeppni en Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefði lifað það af, hún var stofnuð 1945 og er enn starfandi.

Þetta væri gríðarlega sterk undirstaða til frekara samstarfs og klasamyndunar á þessu sviði. Bæjarstjóri sagði að það væri vilji Reykjanesbæjar að starfa með hinum sterku sveitarfélögum í nágrenninu á sviði sjávarútvegs og vinnslu til að fullnýta þessa kosti og skapa aukin tækifæri í sjávarútvegi. En forsendan fyrir því væri að tryggja hráefni til vinnslu inn á svæðið. Ein leiðin væri að stórauka fiskeldi eins og væri til skoðunar á Reykjanesi og hin væri að ná auknum sjávarafla til vinnslu á Suðurnesjum. Báðar ætti að nýta.

Frá þessu er greint á vef Víkurfrétta, vf.is


Næsti íbúafundur verður í kvöld í Holtaskóla og hefst kl. 20:00.