Styrkir til bæjarbúa til viðburðahalds á Ljósanótt

Mynd frá Heimatónleikum 2015
Mynd frá Heimatónleikum 2015

Menningarráð Reykjanesbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum að veita kr. 500.000 til styrkja til íbúa sem hefðu áhuga á að standa fyrir skemmtilegum viðburðum á Ljósanótt. Styrkirnir eru hugsaðir til að efla grasrótarstarf og hvetja íbúa sjálfa til að brydda upp á einhverju skemmtilegu fyrir hverja aðra. Þróun í þessa átt hefur verið vaxandi og vill menningarráð með þessum styrkjum ýta undir hana. Heimatónleikar í gamla bænum eru t.d. dæmi um einstaklega vel heppnað íbúaframtak og sama má segja um tónleikaröðina Með blik í auga og  menningardagskrá í Höfnum sem hefur verið áberandi á sunnudegi Ljósanætur undanfarin ár. Hér að neðan er auglýsing um styrkina og eru íbúar hvattir til að láta slag standa og senda inn umsókn fyrir góðar hugmyndir og muna að hver vegferð hefst á einu skrefi og því um að gera að prófa sig áfram með þær.

Bæjarbúar fyrir bæjarbúa

Viðburðir á Ljósanótt

Viltu standa fyrir viðburði, uppákomu, tónleikum, námskeiði, smiðju eða einhverju öðru skemmtilegu á Ljósanótt? Menningarráð Reykjanesbæjar býður einstaklingum eða hópum fimm 100.000 króna styrki fyrir framkvæmd á vel útfærðum og góðum hugmyndum að viðburðum fyrir gesti Ljósanætur. Skilyrði er að verkefnin séu framkvæmd af styrkþegum sjálfum (þ.e. að styrkir séu ekki nýttir til kaupa á utanaðkomandi atriðum) og að þau séu í þágu íbúa og gesta á Ljósanótt. Styrkurinn er hugsaður til að greiða fyrir kostnað við framkvæmd viðburðar og er greiddur eftir að viðburður hefur farið fram.

Umsóknir skulu sendar á netfangið ljosanott@ljosanott.is fyrir 12. ágúst. Fram þarf að koma:

  • Lýsing á fyrirhuguðu verkefni
  • Útfærsla á framkvæmd (hvar, hvenær og fyrir hverja verkefnið er hugsað)
  • Gróf kostnaðaráætlun
  • Upphæð styrkumsóknar

Umsóknarfrestur er til 12. ágúst og úthlutun liggur fyrir 19. ágúst.