Matsnefnd Nýsköpunar- og þróunarsjóðs skrifstofu menntasviðs hefur lokið við úthlutun styrkja fyrir skólaárið 2025–2026. Alls bárust umsóknir um styrki til 24 verkefna upp á rúmar 28 milljónir króna, en 15 verkefni hlutu styrk að heildarupphæð 11.400.000 króna í ár.
Sjóðurinn var auglýstur 11. febrúar 2025 og er markmiðið með honum að styðja við nýsköpun, framþróun og öflugt innra starf leik- og grunnskólum í Reykjanesbæ. Áhersluatriði fyrir þessa úthlutun voru: Inngildandi menntun, við og jörðin, læsi (lestur, lesskilningur, ritun og tjáning), og gervigreind í skólastarfi. Skilyrði var að verkefnin tengdust menntastefnu Reykjanesbæjar: Með opnum hug og gleði í hjarta.
Hugmyndaauðgi, frumkvæði og gleði leika lykilhlutverk í öllum þeim verkefnum sem hlutu styrk að þessu sinni. Þau endurspegla metnað og eldmóð starfsfólks í leik- og grunnskólum í Reykjanesbæ til að efla menntun, vellíðan og framtíðarsýn barna og ungmenna. Það er sannarlega tilhlökkunarefni að fylgjast með þessum spennandi verkefnum verða að veruleika á næsta skólaári. Við óskum þeim sem hlutu styrk hjartanlega til hamingju!
Verkefni sem hlutu styrk:
-
Grunnskólar – Fagmennska í forgrunni: Gervigreind í grunnskólum Reykjanesbæjar: 2.450.000 kr.
-
Holtaskóli – Öll með – Skýrari sýn, skýrari markmið: 1.800.000 kr.
-
Njarðvíkurskóli – Læsi með tilgang: 800.000 kr.
-
Stapaskóli – Fjármál til framtíðar: 800.000 kr.
-
Njarðvíkurskóli – Óhefðbundin tjáskipti: 750.000 kr.
-
Stapaskóli – Gervigreind í skólastarfi: 600.000 kr.
-
Stapaskóli – Vinnustofa gegn fordómum: 600.000 kr.
-
Háaleitisskóli – Sumarlestur 2025 í Háaleitisskóla: 600.000 kr.
-
Njarðvíkurskóli – Ertu gíraffinn sem prófar eða ljónið sem lærir af mistökunum?: 600.000 kr.
-
Holt – Börn náttúrunnar: 500.000 kr.
-
Akurskóli – Þróun gervigreindar í skólastarfi með FabLab smiðju í Akurskóla: 400.000 kr.
-
Heiðarsel – Orðakast: 400.000 kr.
-
Tjarnarsel – Grænn námsgarður við nýja deild: 400.000 kr.
-
Heiðarskóli – Í átt að betri líðan – ritun: 400.000 kr.
-
Holtaskóli – Valáfangar á unglingastigi með áherslu á sjálfbærni: 300.000 kr.