Styttur bæjarins og fleira skemmtilegt

Út er komið á vegum Listasafns Reykjanesbæjar kort sem ber titilinn Styttur bæjarins og fleira skemmtilegt. Því er ætlað að veita íbúum og gestum upplýsingar um umhverfis- og útilistaverkin í bænum. Myndir eru af öllum verkunum og staðsetning þeirra merkt inn auk þess sem ýmis fróðleikur er veittur um þau svo sem hvenær þau voru sett upp, hverjir höfundarnir eru og fleira í þeim dúr. Upplýsingar þess efnis hafa í raun verið aðgengilegar á vef Reykjanesbæjar síðan árið 2002 en nú er unnið að því að uppfæra þær því mikið hefur bæst við af ýmis konar verkum á síðustu árum.

Það er von þeirra sem að útgáfu kortsins standa að það geti  orðið skemmtileg viðbót við menningarlíf bæjarbúa. Til dæmis getur það auðgað heilsubótargönguna því hvorki fleiri né færri en 47 staðir eru merktir inn á kortið þar sem alls staðar er eitthvað skemmtilegt að sjá. Þá er einnig ljóst að kortið kemur skólum bæjarins að góðum notum en þeir hafa verið mjög duglegir að nýta sér verkin í bænum í námi nemenda sinna.

Þá má lesa út úr kortinu að við höfum átt frumherja á þessum vettvangi sem lagt hafa drjúgan skerf til fegrunar umhverfis okkar í gegnum tíðina og má þar nefna menn eins og Áka Gränz, Erling Jónsson og Guðleif Sigurjónsson.

Kortið er nú aðgengilegt á skrifstofum Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12 og í Duushúsum og er ókeypis að sjálfsögðu. Útgáfa þess var styrkt af Safnasjóði ríkisins.