Tæplega 200 kíló af fitumassa og 63 kíló af vöðvamassa

Frá útskrift fyrsta hópsins á Nesvöllum 6. mars. Ljósmynd: Víkurfréttir
Frá útskrift fyrsta hópsins á Nesvöllum 6. mars. Ljósmynd: Víkurfréttir

Frábær árangur hefur náðst í verkefni dr. Janusar Guðlaugssonar; Fjölþætt heilsuefling 65+ í Reykjanesbæ. Verkefnið hófst í maí árið 2017 og var fyrsti hópurinn útskrifaður þann 6. mars síðastliðinn.

Verkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ fór frá upphafi vel af stað í Reykjanesbæ. Margir eldri borgarar sýndu verkefninu strax áhuga en um 120 einstaklingar á aldrinum 65 til 94 ára skráðu sig til þátttöku. Um 80 þátttakendur hafa nú lokið 18 mánaða þjálfun en munu verða áfram í sex mánuði í viðbót undir handleiðslu Janusar heilsueflingar slf. sem þakklætisvottur fyrir að ryðja þessa braut. Æft var að kappi í Reykjaneshöll og heilsuræktarstöðinni Massa í Njarðvík undir stjórn starfsfólks heilsueflingar.

Markvisst hefur verið unnið að ná þeim markmiðum og normum sem alþjóðlegar heilbrigðisstofnanir og Embætti landlæknis setur þessum aldurshópi. Markmið verkefnisins er að bæta heilsu og lífsgæði fólks með daglegri hreyfingu, stunda styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku og bæta matarmenningu. Langtíma markmið verkefnis er að geta sinnt athöfnum daglegs lífs lengur og koma í veg fyrir of snemmbæra innlögnum inn á dvalar- og hjúkrunarheimili.

Á sama tíma og fyrsti hópurinn var útskrifaður miðvikudaginn 6. mars var jafnframt skrifað undir nýjan samstarfssamning til þriggja ára milli Reykjanesbæjar og Janusar heilsueflingar slf. Þegar hefur þriðji hópurinn bæst við í verkefnið auk þess sem fyrir er hópur sem hefur verið í 12 mánuði. Markmiðið er annars að taka inn í verkefnið á sex mánaða fresti.

Hér má sjá vöðvamassann sem hópurinn hefur bætt á sig og fituna sem hann hefur losað sig við

Janus Guðlaugsson segist vonast til að hóparnir tveir sem nú séu í verkefninu nái jafn góðum árangri og sá fyrsti. Niðurstöður sýna að þessi hópur hefur á einu og hálfu ári náð á byggja upp í sameiningu 63 kg af vöðvamassa sem annars tapast með kyrrsetu lífsstíl og ýmsum slæmum afleiðingum eins og hreyfiskerðingu og hrumleika. Á hinn bóginn hefur hópurinn náð að losa sig við um 199 kg af fitumassa. Sá massi, þrátt fyrir að hægt sé að brenna honum til orkumyndunar, getur verið til trafala sé of mikið af honum.

Verkefnið hefur einnig sýnt fram á sterka vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum eða svonefndri efnaskiptavillu, þar sem um 33% árangur náðist á sex fyrstu mánuðum. Þá lækkaði blóðþrýstingur verulega, hreyfifærni jókst og afkastageta færðist til betri vegar. Einnig voru lífsgæði mæld reglulega á þessu tímabili, mat þátttakenda á eigin heilsu og velferð út frá alþjóðlegum spurningalista. Niðurstaðan er sú að heilsa og lífsgæði jukust um 22% á 18 mánaða þjálfunartíma.

Hér handsala Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Janus Guðlaugsson heilsueflingu nýjan samning til þriggja ára. Ljósmynd Víkurfréttir