Taktu ábyrgð á þinni þjálfun!

Siggi Raggi
Siggi Raggi

Knattspyrnudeild Keflavíkur býður upp á fyrirlestur með Sigurði Ragnari Eyjólfssyni, sem er best þekktur undir nafninu Siggi Raggi, í dag, föstudaginn 5. febrúar, og mun fyrirlesturinn vera opinn út sunnudaginn 7. febrúar.

Fyrirlestur Sigga Ragga ber nafnið “Vertu þinn eigin þjálfari – taktu ábyrgð á þinni þjálfun!" og fjallar um aðferðir sem fólk hefur notað til þess að verða framúrskarandi í því sem það er að fást við.

Siggi Raggi veltir fram spurningum á borð við, „Getur þú notað sömu aðferðir í að bæta árangurinn þinn? Hvernig fóru Gylfi Sigurðsson og Sara Björk Gunnarsdóttir að því að verða best á landinu í fótbolta? Hvernig fór Elín Metta Jensen að því að dúxa á inntökuprófinu í læknisfræði eftir að hafa árinu áður ekki verið á meðal 50 efstu í sama prófi?“ Í fyrirlestrinum verða jafnframt tekin praktísk dæmi úr íþróttum, námi og tónlist sem auðvelt er að yfirfæra fyrir þá sem vilja ná betri árangri á einhverju sviði. Fyrirlesturinn kemur inn á mikilvægi þess að hafa vaxtarhugarfar fremur en fastmótað hugarfar og að fólk taki sjálft ábyrgð á sinni þjálfun, færni og framþróun.

Siggi Raggi er íþróttafræðingur og lauk mastersgráðu í íþróttasálfræði frá University of North Carolina at Greensboro. Hann hefur lokið við UEFA Pro þjálfaragráðu frá enska knattspyrnusambandinu. Hann starfaði sem fræðslustjóri Knattspyrnusambands Íslands í 12 ár og mótaði þar þjálfaramenntun KSÍ. Hann þjálfaði A-landslið kvenna í knattspyrnu í 7 ár og kom þeim í lokakeppni Evrópumótsins tvisvar og fór með liðið í 8-liða úrslit árið 2013 sem er besti árangur landsliðsins frá upphafi. Hann hefur þjálfað A-landslið kvenna hjá Kína í knattspyrnu og kom þeim í lokakeppni HM 2019. Siggi Raggi hefur haldið hundruð fyrirlestra hjá fyrirtækjum, stofnunum, skólum og íþróttafélögum. Í dag starfar Siggi Raggi sem þjálfari meistaraflokks Keflavíkur í Pepsí Max deildinni og er jafnframt yfirmaður knattspyrnumála hjá Keflavík.