Það er leikur að læra á Vesturbergi

Stafir eru meðal námsgagna í kennsluaðferðinni Leikur að læra. Myndin er frá Vesturbergi.
Stafir eru meðal námsgagna í kennsluaðferðinni Leikur að læra. Myndin er frá Vesturbergi.

Að fá að njóta sín á eigin forsendum, að fá að leika í friði, að fá að efla sköpunarþörf, að efla ímyndunarafl og að fá að sýna frumkvæði eru nokkrir þættir sem börn í Vesturbergi fá notið. Bráðum tvítugur leikskólinn hefur haldið í þær hefðir og það skipulag sem upphaflega var lagt af stað með árið 1997. Ein af þeim fáu kennsluaðferðum sem bætt hefur verið við í Vesturbergi er Leikur að læra.

Leikur að læra er kennsluaðferð þar sem börnum á leikskólaaldri og fram að miðstigi í grunnskóla eru kennd bókleg fög í gegnum leiki og hreyfingu á skemmtilegan, líflegan og árangursríkan hátt. Það er svo ótrúlega heppilegt þegar aðferðir finnast þar sem allir, bæði kennarar og nemendur njóta sín. Kennarinn fær í hendurnar frábært  verkfæri þar sem hann getur notað ýmsar aðferðir til að kenna bæði læsi og stærðfræði. Kennarar sem nýta sér aðferðir Leikur að læra fer smátt og smátt að tileinka sér námsefnið frá öðru sjónarhorni, frá sjónarhorni barnanna og þörf þeirra til að hreyfa sig.

Einn hluti af kennsluaðferðinni er foreldraverkefni, en tvo morgna í viku gera börnin verkefni þar sem foreldrar taka þátt með börnum sínum, framkvæma verkefni og hreyfingu í kjölfarið. Foreldrar hafa áhuga og hafa sýnt heilmikla leikni í verkefnunum.

Vesturberg varð hluti af Leikur að læra liðinu í ágúst síðastliðnum eftir vetrarlangt innleiðingarferli. Alls eru leikskólarnir fimmtán sem eru hluti af Leikur að læra liðinu. Höfundur aðferðarinnar er Kristín Einarsdóttir íþróttakennari en hún er einnig eigandi. Spennandi tímar eru framundan hjá Leikur að læra liðinu en á næstunni er ráðstefna/vinnustofur fyrir liðið.

Brynja Aðalbergsdóttir, leikskólastjóri Vesturbergi.