Þakkir að lokinni heilsu- og forvarnarviku

Frá geðræktargöngu
Frá geðræktargöngu

Vikuna 27. september - 3. október var haldin í annað sinn sameiginlega Heilsu- og forvarnarvika í Reykjanesbæ. Allar stofnanir Reykjanesbæjar auk fjölmargra fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka tóku þátt í verkefninu með okkur.

Segja má að Geðræktarganga Bjargarinnar hafi lagt tóninn fyrir heilsu -og forvarnarvikuna með heilsuræktargöngunni og geðorðunum 10 í upphafi vikunnar. Áhersla var lögð á hollan og góðan mat venju fremur og sáu Skólamatur og Menu-veitingar um að laða fram lokkandi heilsurétti. Reykjaneshöllin bauð gestum og gangandi upp á heilsudrykk, í Lyfju var kynning á My Secret drykknum og Cocowell kókoshnetuvatni, Nettó kynnti hollustu boost , Berry safa og Weighlevel náttúrublöndu, ásamt heilsuvörum frá Yggdrasil. Heilsuhúsið bauð upp á ýmsar kynningar alla vikuna og Heilsumiðstöðin kynnti starfsemi sína með opnu húsi. Átak heilsulind bauð bæjarbúum m.a. frítt í tækjasal en auk alls þessa var boðið upp á ýmsar heilsufarsmælingar. Að þeim tilboðum stóðu Lífsstíll, Lyfja, Lyf og heilsa, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Sjúkraþjálfun Suðurnesja og fleiri aðilar. Íþróttafélögin kynntu starfsemi sína og buðu bæjarbúum til þátttöku. Nesvellir og leikskólarnir í Reykjanesbæ buðu uppá fjölbreytta dagskrá og Bókasafn Reykjanesbæjar bauð bæjarbúum uppá óvæntan bókaglaðning.

Í samstarfi við Brunavarnir Suðurnesja, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Lögregluna á Suðurnesjum, TM og Reykjanesbæ var Forvarnardagur ungra ökumanna haldinn í 88-húsinu og tóku um 125 nemendur í FS þátt í honum.

Í Duushúsum var borgarafundur gegn einelti sem Heimili og skóli, Liðsmenn Jerico, Olweusaráætlunin og Ungmennaráð SAFT stóðu fyrir í samstarfi við Símann, mennta- og menningarmálaráðuneytið, félags- og tryggingamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila.

Fjöldaskokk, fyrirlestrar, kirkjustarf, vettvangsferðir, heilsumatseðill á Café Iðnó og margt, margt fleira var í boði í heilsu- og forvarnarvikunni, miklu meira en hægt er að telja upp hér. Með sameiginlegu framlagi þeirra fjölmörgu sem tóku þátt með einum eða öðrum hætti göngum við veginn fram á við til betri heilsu. Það er ávallt mikilvægt að huga að heilsu og forvörnum, en ekki hvað síst á það við á þeim erfiðu tímum sem við búum við núna. Er það von okkar að heilsu- og forvarnarvikan verði hvatning fyrir bæjarbúa til að halda áfram að hlúa að velferð sinni, fjölskyldu sinnar og nærumhverfis. Það skiptir máli að við hlúum vel hvort að öðru.