Þakkir að lokinni heilsu- og forvarnarviku

Helga Margrét Guðmundsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur við minningartöskuna góðu.
Helga Margrét Guðmundsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur við minningartöskuna góðu.

Reykjanesbær þakkar öllum þeim sem tóku þátt í nýliðinni heilsu- og forvarnarviku. Viðburðir voru vel sóttir og hafa margir eflaust nýtt vikuna til að fræðast og eflast og jafnvel íhugað að taka upp nýja heilsusamlega siði. Eins og áður var fjölbreytni í fyrirrúmi svo allir gátu fundið eitthvað við sitt hæfi.

Það hefur verið sláandi að hlusta á ættingja Einars Darra, ungs drengs sem lést í maí sl. vegna neyslu róandi lyfja. Þau settu í kjölfarið af stað forvarnarverkefnið „Ég á bara eitt líf.“ Þau hafa látið gera myndbrot og birt á samfélagsmiðlinum YouTube og látið framleiða bleik armbönd með áletruninni „Ég á bara eitt líf.“ Ættingjar Einars Darra settu heilsu- og forvarnarviku og bæjarstjórn studdi verkefnið með því að bera armböndin á bæjarstjórnarfundi sem féll innan heilsu- og forvarnarviku.

Sá viðburður sem vakti hvað mesta athygli var fyrirlesturinn Lof mér að falla, sem tengist samnefndri kvikmynd sem nú er í sýningum. Þar sagði Berglind Ósk Guðmundsdóttir sögu systur sinnar Kirstínar Gerðar, sem lengi glímdi við fíknivanda og féll að lokum fyrir eigin hendi. Jóhannes Kristjánsson sagði sögu dóttur sinnar sem lést langt fyrir aldur fram úr of stórum skammti fíkniefna. 

Helga Margrét Guðmundsdóttir tómstunda- og félagsmálafræðingur fyllti Nesvelli þegar hún fjallaði um félagslega heilsu eldri borgara. Fyrirlesturinn kallaði hún „Að fægja silfrið.“ Helga Margrét hafði meðferðis minningartösku sem vakti athygli, ekki síður en fágaður borðbúnaður. Boðið var upp á heilsukaffiboð í anda heilsu- og forvarnarviku. Nokkrir heppnir gestir voru dregnir út í happdrætti Nettó.

Þeir sem hafa hugmyndir um hvernig geri megi betur í heilsu- og forvarnarviku geta sent tölvupóst á Hafþór Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúa í netfangið hafthor.birgisson@reykjanesbaer.is

Hér má sjá mynd af Jóhannesi með dóttur sinni og Berglindi með systur sinni

Hér má sjá mynd af bæjarfulltrúunum ellefu bera armböndin

Hér má sjá mynd af vinningshöfum í happdrætti Nettó á Nesvöllum