Þakkir að lokinni Ljósanótt

Flugeldasýningin í boði Toyota Reykjanesbæ þótti með mikilfenglegasta móti. Ljósmynd: Víkurfréttir
Flugeldasýningin í boði Toyota Reykjanesbæ þótti með mikilfenglegasta móti. Ljósmynd: Víkurfréttir

Vel heppnuð Ljósanæturhátíð er að baki. Framkvæmdastjórn hátíðarinnar þakkar bæjarbúum fyrir þeirra framlag í dagskrá og gestum fyrir að taka þátt í gleðinni.

Það sem einkenndi hátíðina í ár er góð þátttaka í öllum dagskráratriðum. Börn og barnafjölskyldur fylltu Stapann þegar Söngvaborg kom þar fram og unga fólkið fjölmennti í sundlaugarpartý svo metþátttaka varð. Uppselt varð á heimatónleika í gamla bænum á innan við hálftíma, Queen messa kórs Keflavíkurkirkju sló í gegn og aðstandendur tónleikasýningarinnar Með soul í auga fylltu Andrews Theater í þrígang. Fjöldi manns sótti Hafnir heim og tók þátt í dagskrá heimamanna á lokadegi hátíðarinnar. Þátttaka í íþróttaviðburðum og Árgangagöngu var góð og miðbærinn fylltist þegar hátíðin náði hámarki á laugardagskvöld með flugeldasýningu og tendrun bergisins fyrir veturinn.

Góð stemmning var í bænum alla hátíðisdaga og veður betra en spár höfðu gefið til kynna. Aldrei hafa fleiri börn sungið inn hátíðina en nú, enda hefur fólksfjölgun í bænum verið mikil á undanförnum mánuðum. 

Við hlökkum til hátíðar að ári!