Þakkir í lok tuttugustu Ljósanætur

Frá flugeldasýningu á laugardagskvöld, sem stjórnað var af Björgunarsveitinni Suðurnes. Ljósmynd Ví…
Frá flugeldasýningu á laugardagskvöld, sem stjórnað var af Björgunarsveitinni Suðurnes. Ljósmynd Víkurfréttir

Í tuttugu ár hefur Ljósanótt vaxið og dafnað og orðin að einni glæsilegustu bæjarhátíð landsins. Því ber meðal annars að þakka framlagi bæjarbúa í dagskrá hátíðarinnar, stuðningi fjölda fyrirtækja á svæðinu, að ógleymdum þúsundum gesta sem láta sig ekki vanta á yfir 150 viðburði.

Á þessum tímamótum var settur í loftið nýr Ljósanæturvefur sem hélt utan um fjölbreytta og metnaðarfulla sex daga dagskrá. Aldrei hafa fleiri viðburðir verið á dagskrá eða fleiri komið að hátíðinni. Markmiðið var að allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og gleði og samhugur réði ríkjum. Nýjir viðburðir í bland við aðra sem hafa fest sig í sessi voru vel sóttir. Lista- og handverksfólk opnaði allt upp á gátt og sýndi í öllum skúmaskotum. Ljósanótt er ekki síður hátíð þessa fólks, sem hefur lagt dag við nótt við að skapa svo gestir fái notið.

Húsfyllir var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hljómahöll, ungir sem aldnir mættu á setningarathöfn í Skrúðgarðinum, íbúar af erlendum uppruna tóku ríkari þátt en áður og 5.000 skammtar af kjötsúpu og vegan súpu runnu út á föstudagskvöldinu. Þeir allra hörðustu létu úrhellisrigningu ekki spilla þátttöku í Árgangagöngunni og náði hátíðin svo hámarki í blíðskaparveðri á laugardagskvöldinu með flugeldasýningu og tendrun á ljósunum á Berginu. Veðrið lék svo við bæjarbúa sem nýttu sunnudaginn til að snúa sér í tívolítækjum, skoða listasýningar og kíkja í búðir.

Hátíðin í ár var sérstaklega kynnt sem „Plastlaus Ljósanótt“ sem er liður í umhverfisátaki bæjarins. Fjöldi margnota poka voru saumaðir af bæjarbúum og notaðir í verslunum bæjarins.

Á fjölmennum samkomum sem þessum sést vel hve öflug þátttaka og eftirlit lögreglu og björgunarsveitarfólks skiptir sköpum og viljum við þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra mikilvæga starf.

Ykkur bæjarbúum og öðrum velunnurum hátíðarinnar þökkum við sömuleiðis fyrir ykkar aðkomu. Við hlökkum til að halda með ykkur Ljósanótt aftur að ári.
Eins og alltaf verður boðað til íbúafundar um framkvæmd og dagskrá Ljósanætur í vetur og eru athugasemdir og hugmyndir vel þegnar til að gera næstu Ljósanótt enn betri.