Þétt dagskrá á síðasta degi Ljósanæturhátíðar

Vinir hittast í árgangagöngu, spjalla saman og hlægja niður alla Hafnargötu. Ljósmynd: Víkurfréttir
Vinir hittast í árgangagöngu, spjalla saman og hlægja niður alla Hafnargötu. Ljósmynd: Víkurfréttir

Mikill mannfjöldi safnaðast saman á hátíðarsvæði við Bakkalág í gærkvöldi þegar Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ náði hámarki. Það mátti heyra á gestum að þeim fannst flugeldasýningin mikilfengleg í ár. Hún var í boði Toyota umboðsins í Reykjanesbæ. Mikið líf var í bænum frameftir nóttu enda dansleikir víða, m.a. margrómað Ljósanæturball í Stapa. Dagskránni er hvergi nærri lokið.

Ljósanótt fór vel fram og áhyggjur heimamanna um að andstæðingar stóriðju kynnu að spilla gleðinni sem alltaf einkennir hátíðina reyndust óþarfar. Af öllum þeim fjölda fólks sem tók þátt í árgangagöngunni sáust fimm með grímur fyrir vitum. Allir hinir nutu þess að hitta félaga sína og jafnaldra, sem margir hverjir hittast einungis á þessum viðburði. Þá er þráðurinn tekinn upp, spjallað og hlegið niður alla Hafnargötu að hátíðarsvæði.

Fyrr um daginn höfðu börn sungið inn daginn í Stapa með Söngvaborg og stemmning þar var góð. Fjölskyldur nota gjarnan rólegheit fyrri hluta laugardagsins til að fara með yngri börnin í leiktæki. Skessan bauð svo í lummur í kaffitímanum um miðjan dag og þar er alltaf vinsælt að koma við.

Ljósanæturhátíð er hvergi nærri lokið því mikið verður um að vera í dag. Hafnarbúar munu bjóða til tónleika Elízu Newman og KK í Kirkjuvogskirkju kl. 14:00 og 16:00 og kaffisala og listsýning verður í Samkomuhúsinu milli 13:00 og 16:00. Þá verða tvær sýningar á tónlistarsýningunni „Með soul í auga“ í Andrews á Ásbrú í dag, kl. 16:00 og 20:00. Listsýningar í bænum verða opnar og leiktæki áfram við hátíðarsvæði, svo nú er tækifærið til að upplifa það sem ekki hefur náðst í þeirri miklu dagskrá sem boðið er upp á þessa Ljósanæturhátíð. Fríða Dís verður með listamannaleiðsögn um sýningu sína, Próf/Test í Stofunni Duus Safnahúsum kl. 14:00. Sjá nánar á http://www.ljosanott.is.