Þjóðarsáttmáli til að tryggja jafnan rétt barna

„Þjóðarsáttmáli um læsi snýst um að tryggja jafnan rétt barna,“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra við undirritun sáttmálans í Bókasafni Reykjanesbæjar í dag. Eins og fram hefur komið nær 30% drengja og 12% stúlkna ekki að lesa sér til gagns við lok grunnskóla. Illugi nefndi að við það væri ekki unað, þar sem sú niðurstaða byggi til stéttaskiptingu.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Gylfi Jón Gylfason verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun hafa á undanförnum vikum farið um suðvesturhorn landsins til þess að undirrita þjóðarsáttmálann, en verkefninu var hleypt af stokkunum 24. ágúst sl. þegar sáttmálinn var fyrst undirritaður í Borgarbókasafni. Auk menntamálaráðherra skrifar bæjarstjóri hvers sveitarfélags og fulltrúi frá landssamtökunum Heimili og skóli undir sáttmálann. Minni útgáfa sáttmálans er einnig undirrituð, henni rúllað upp og stungið í Íslandslíkan.

Í máli ráðherra kom fram að Pisa kannanir gæfu sterkar vísbendingar um að hér þyrfti að spyrna við fótum en ekki síður sú staðreynd að námsframvinda sé lökust á Íslandi af öllum OECD löndunum. Það þýðir að Ísland vermir botninn þegar kemur að fjölda þeirra sem ljúka framhaldsnámi á tilsettum tíma. „Meðalaldur þeirra sem útskriftast úr grunnnámi í háskóla eru rúmlega 30 ár. Það þýðir að við erum skemur á vinnumarkaði sem hlýtur að hafa áhrif á allt efnahagskerfi okkar.“

Illugi tók þó fram að margt gott hefði átt sér stað í íslensku menntakerfi og tók sérstaklega fram hversu góðum árangri Reykjanesbær og samstarfssveitarfélögin Garður og Sandgerði hefðu náð í læsisverkefnum sínum. Þær góðu vísbendingar sem ætti að byggja á sagði Illugi vera þær staðreyndir að börnum liði betur og betur í skóla og að námsárangur skýrðist ekki aðeins út frá skólum, því þeir væru jafnir. „Vegna þess hversu jafnir skólarnir eru reynist auðveldar að jafna tækifæri barna. Barn sem ekki les sér til gagns við lok grunnskóla hefur ekki sömu tækifæri í lífinu hvað varðar framhaldsnám og atvinnu síðar meir. En það er ekki bara skólanna að vinna að bættu læsi heldur ekki síður heimilanna, þar liggur þjálfunin.“

Helgi Arnarson fræðslustjóri Reykjanesbæjar tók undir þau orð Illuga að hér hefði góður árangur náðst í læsi og sagði alla sem koma að verkefninu hafa lagst á árarnar til að svo mætti verða.

Það var Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Anna Sigríður Jóhannesdóttir frá Heimili og skóla sem undirrituðu sáttmálann ásamt Illuga.

Strengjasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar opnaði athöfnina með flutningi á laginu Can Can eftir Offenbach og í lok athafnar tók Ingólfur Þórarinsson, betur þekktur sem Ingó Veðurguð, fram gítarinn og flutti einkennislag verkefnisins, „Það er gott að lesa“ ásamt nemendum í leikskólanum Tjarnarseli og Myllubakkaskóla.