Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts kynnir sér skólaþjónustu Reykjanesbæjar

Starfsfólk þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts utan við Fjölskyldusetrið þar sem tekið var á …
Starfsfólk þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts utan við Fjölskyldusetrið þar sem tekið var á móti hópnum.

Á dögunum heimsóttu starfsmenn frá þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts Reykjanesbæ til þess að kynna sér verklag skólaþjónustu og þjónustu við nemendur með íslensku sem annað tungumál. Starfsfólkið hafði heyrt góða hluti um skólaþjónustu Reykjanesbæjar og varð hún því fyrir valinu.

Heimsóknin var hluti af árlegum starfsdegi þjónustumiðstöðvarinnar sem er ætlaður að styðja við og styrkja faglegt starf þeirra. Þau verkefni sem vöktu mestan áhuga hjá starfsmönnum þjónustumiðstöðvarinnar og þeir vildu kynna sér betur voru verkefni fræðslusviðs Reykjanesbæjar í tengslum við stuðning við nemendur með íslensku sem annað tungumál, stöðumat fyrir nýja nemendur af erlendum uppruna og verklag skólaþjónustunnar. Starfsfólk þjónustumiðstöðvar fékk kynningu á þessum verkefnum ásamt kynningu á Stapaskóla, sem nú rís í Dalshverfi.

Það voru Helgi Arnarson sviðsstjóri Fræðslusviðs, Einar Trausti Einarsson yfirsálfræðingur og Anna Hulda Einarsdóttir kennsluráðgjafi sem kynntu verkferla skólaþjónustu og þjónustu við nemendur með íslensku sem annað tungumál.

Að sögn Einars Trausta voru starfsmenn þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts ánægðir með heimsóknina. „Starfsfólkið var mjög áhugasamt um að heyra nánar um okkar verklag og þjónustu. Það er ávallt gleðilegt en í senn heiður að fá heimsókn frá hópi sem vinnur að sambærilegum verkefnum og fá tækifæri til að eiga faglegt samtal um okkar starfsemi. Þar fáum við mikilvæga endurgjöf á okkar starfsemi sem nýtist í þróun þjónustu okkar.“

Einar Trausti segir mikla ánægju hafa verið með heimsóknina og gestina áhugasama um að nýta sér efni hennar í sínu starfi. „Ég vil nýta tækifærið og þakka starfsfólki þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts fyrir ánægjulega heimsókn.“