Þrjú íþróttamannvirki afhent

Vígsla nýs gervigrasvallar vestan Nettóhallar, borðtennisaðstaða Borðtennisfélags Reykjanesbæjar og undirritun samnings við Golfklúbb Suðurnesja.

Miðvikudaginn 29. september var nýr gervigrasvöllur vestan Nettóhallar vígður og hann afhentur formlega forsvarsmönnum knattspyrnudeilda Keflavíkur og Njarðvíkur. Líkt og kom fram í máli Guðlaugs Helga Sigurjónssonar sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs var vandað vel til verksins og uppfyllir völlurinn kröfur FIFA Qualitiy Pro staðla. Völlurinn er upphitaður, flóðlýstur og með vökvunarbúnaði. Til máls tóku Sigurður Garðarsson og Brynjar Freyr Garðarsson formenn knattspyrnudeilda Keflavíkur og UMFN. Valdimar Guðmundsson söng tvö lög við undirleik Björgvins Ívars Baldurssonar.

Að lokinni þessari vígslu ritaði Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar undir samning við Ólöfu Sveinsdóttur formann Golfklúbbs Suðurnesja um afnot af nýrri inniaðstöðu fyrir GS sem staðsett verður að Hringbraut 125, sem þau ráðgera að vígja síðar á árinu. Ólöf formaður GS flutti stutt ávarp um starfssemi Golfklúbbsins sl. sumar og sagði stuttlega frá hvernig þau sjá fyrir sér nýju aðstöðuna.

Að síðustu fór fram vígsla á nýrri aðstöðu fyrir Borðtennisfélag Reykjanesbæjar sem einnig er staðsett að Hringbraut 125, en fulltrúar félagsins hafa unnið hörðum höndum í sjálfboðavinnu við að gera virkilega glæsilega aðstöðu undir starfssemina. Ávörp af því tilefni fluttu Piotr Herman formaður félagsins og Jón Gunnarsson gjaldkeri félagsins ásamt Erni Þórðarsyni formanni Borðtennissambands Íslands.

Reykjanesbær óskar öllum ofangreindum til hamingju með bætta aðstöðu fyrir sitt starf.