Tónleikar til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja

Frá æfingu.
Frá æfingu.

Jólatónleikar kóra til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja

Fimmtudaginn 6. desember verða haldnir stórtónleikar í Stapanum í Reykjanesbæ til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja. Á tónleikunum koma fram 6 kórar af Suðurnesjum, en það eru Eldey, kór eldri borgara, Karlakór Keflavíkur, kór Keflavíkurkirkju, Kvennakór Suðurnesja, Sönghópur Suðurnesja og Söngsveitin Víkingar. Kórarnir munu syngja nokkur lög hver í sínu lagi og sameinast svo í lokin í einn stóran kór. Stjórnendur á tónleikunum eru Arnór Vilbergsson, Helga Bryndís Magnúsdóttir, Dagný Þórunn Jónsdóttir og Steinar Guðmundsson. Tónleikarnir hefjast kl. 20. Miðasala verður við innganginn og er miðaverði stillt í hóf, aðeins 1000 kr. Allur ágóði af tónleikunum rennur til Velferðarsjóðs Suðurnesja. Einnig verður tekið við frjálsum framlögum í sjóðinn.

Á haustdögum kom upp sú hugmynd hjá kórkonum í Kvennakór Suðurnesja að fá aðra kóra til samstarfs við sig til að halda stóra jólatónleika. Þeir kórar sem haft var samband við tóku vel í erindið og þróaðist hugmyndin síðan út í að tónleikarnir yrðu haldnir til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja. Það er gleðilegt að allir þessir kórar skuli taka höndum saman og láta gott af sér leiða með þessum hætti.

Mikilvægt starf hjá Velferðarsjóðnum

Meginhlutverk Velferðarsjóðs Suðurnesja er að veita íbúum á Suðurnesjum brýnasta stuðning í þeim þrengingum sem nú ganga yfir samfélagið. Með sjóðnum er fjármagni sem ella deilist á marga aðila safnað saman á einn stað. Fyrir vikið gefst betri yfirsýn yfir þörfina og möguleikar til fjáröflunar eru meiri en ella væri þegar kraftarnir dreifast. Hjálparstarf kirkjunnar hefur umsjón með sjóðnum og veitir úr honum samkvæmt því vinnulagi sem þar tíðkast.

Aðstandendur tónleikanna hvetja alla sem vettlingi geta valdið að taka nú höndum saman og styrkja Velferðarsjóð Suðurnesja og hjálpa með því bágstöddum fjölskyldum fyrir jólin. Um leið og tónleikagestir láta gott af sér leiða fá þeir að eiga notalega stund og hlýða á ljúfa tónlist. Tónleikarnir verða eins og áður sagði í Hljómahöllinni í Stapa, fimmtudaginn 6. desember og hefjast þeir kl. 20.