Frá gítarsamspili í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Frá gítarsamspili í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar var stofnaður 1. september 1999 í kjölfar þess að Tónlistarskólinn í Keflavík og Tónlistarskóli Njarðvíkur voru lagðir niður. Skólinn starfaði í húsnæði gömlu tónlistarskólanna þar til í febrúar 2014 þegar hann flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði í Hljómahöll.

Skólinn er í viðamiklu samstarfi við alla sex grunnskóla Reykjanesbæjar og er því með sjö kennslustöðvar í bæjarfélaginu. Samstarf Tónlistarskólans og grunnskólanna er tvíþætt. Annars vegar að öll börn í 1. og 2. bekk grunnskólanna eru í Forskóla Tónlistarskólans. Forskólinn er kenndur í hverjum grunnskóla fyrir sig, felldur inn í stundatöflu nemenda og þeir greiða engin skólagjöld. Miðað er við að hópastærð í forskóla sé á bilinu 8 til 11 nemendur. Hins vegar felst samstarfið í því að nemendur í 3. til 7. bekk sem eru í tónlistarskólanum, eiga kost á því að fá hljóðfærakennslu á skólatíma. Hljóðfæratímarnir eru þá felldir inn í skóladag nemenda, en með því er stuðlað að samfelldum skóladegi.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar starfar samkvæmt Aðalnámskrá tónlistarskóla, sem útgefin er af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Skólinn er í samstarfi við Tónlistarskóla FÍH um kennslu rytmískra (jass, rokk) tónfræðagreina á efri námsstigum.

Kennt er á öll hefðbundin hljóðfæri, sem og söngur, innan sígildrar og rytmískrar tónlistar ásamt tónfræðagreinum skv. aðalnámskrá. Nemendur skólans eru á öllum aldri og á öllum námsstigum upp að háskólastigi.

Skólinn býður upp á Tónver sem valgrein þar sem nemendur fá kennslu í gerð og vinnslu tónlistar á tölvur, ásamt grunnnámi í upptökutækni.

Í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar eru starfræktar að jafnaði 3-4 lúðrasveitir, 2-3 strengjasveitir, Léttsveit,  jass- og rokkhljómsveitir og smærri samleikshópar. Bjöllukór hefur verið starfræktur í 5 ár en skólinn var lengst af eini tónlistarskólinn á landinu sem bauð nemendum sínum upp á bjöllukór sem hluta af náminu og hann er enn leiðandi á þessu sviði hérlendis meðal tónlistarskóla. Svo er kór innan söngdeildar og barnakór, en öll börn í Reykjanesbæ á aldrinum 9-12 ára eru velkomin í kórinn.

Í skólanum er unnið með verkefni sem er ætlað píanó- og öðrum hljómborðsnemendum og ber heitið Slagharpan, en það er annað heiti píanósins. Þetta er þróunarverkefni sem gengur út á það að píanónemendur vinna saman í hópum að margvíslegri tónlistarupplifun, bæði í hljóðfæraleik og túlkun, en einnig skipar sköpunarþátturinn stóran sess í Slaghörpunni. Þetta er skemmtilegt og spennandi verkefni, sem veitir píanó – og hljómborðsnemendum aðra og nýja sýn á tónlist og það er ánægjulegt að fylgjast með þróun þess.

Tónlistarskólinn leggur sig fram um að vera virkur í samfélaginu enda er mikið leitað til skólans af bæjaryfirvöldum sem og af samfélaginu öllu.

Upplýsingar um nám og skipulag er að finna á vefsíðu skólans, tonlistarskoli.reykjanesbaer.is og einnig veitir skrifstofa skólans sem og skólastjórar allar upplýsingar.

 Haraldur Árni Haraldsson skólastjóri