Tónlistarskóli Reykjanesbæjar rokkar.

Horft eftir gangi á efri hæð Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Horft eftir gangi á efri hæð Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er kominn í nýtt, rúmgott og vel búið húsnæði í Hljómahöll. Þar með hefur sá húsnæðisvandi sem skólinn hefur búið við alla tíð, verið leystur.

Hljómahöll er tónlistar- og ráðstefnuhöll þar sem saman fer starfsemi Tónlistarskólans, Rokksafns Íslands, tónleika og ráðstefnusalanna Stapa og Bergs, auk salarins Merkiness sem er huggulegur funda- ráðstefnu- og veislusalur. Að auki er lítil kaffitería í Rokksafninu sem setur skemmtilegan svip á heildarmyndina.
Það sem er sérstakt við hið nýja heimili Tónlistarskólans, er þetta samlíf með annarri  starfsemi hússins. Það er afar sérstakt og skemmtilegt að horfa inn til Rokksafnsins, sem er mjög fallegt og vel uppsett safn, litríkt og skemmtilega lýst. Það má því segja að Rokksafnið virki sem skreyting fyrir allt húsið og að nemendur skólans, starfsfólk og aðrir sem eiga leið um ganga skólans hafi fyrir augum fallegt útsýni.

Það er ekki nokkur vafi á þvi að hin nýja aðstaða Tónlistarskóla Reykjanesbæjar mun hafa mikil áhrif á skólastarfið. M.a. á þann hátt að kennarar munu eiga mun auðveldara með samstarf sín á milli og nemendur, hvort sem er í hljóðfæra- eða söngnámi sem og í öllum samleik og samsöng, stunda nám sitt við allra bestu aðstæður.