Ungmennaráð Reykjanesbæjar fundaði í síðasta sinn með bæjarstjórn

Ungmennaráð ásamt Hafþóri.
Ungmennaráð ásamt Hafþóri.

Flottum og góðum fundi Ungmennaráðs og bæjarstjórnar  lauk í gær og er óhætt  að segja að góð stemmning hafi ríkt á fundinum. Bæði ráðin kepptust um að hrósa hvort öðru. Bæjarstjórn hefur frá upphafi stutt mjög vel við ráðið og tekið hugmyndum vel og reynt eftir fremsta megi að hrinda þeim í framkvæmd eins og dæmin sanna.

Að venju voru það stúlkurnar sem héldu ræður fyrir hönd Ungmennaráðsins en þrjár ungar dömur fóru í ræðustól og ávörpuðu fundarfólk og gesti.
Í máli Özru Crnac kom fram að mikil ánægja væri meðal ráðsins með forvarnardag Vinnuskólans, en hann mun fara fram í fyrsta sinn núna í sumar. Azra hvatti ennfremur bæjarstjórn til halda áfram að styðja við Ungmennaráðið og tók dæmi um að hún væri búin að fara tvö ár í röð á ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði. Hún sagði mikilvægt að fleiri þátttakendur  yrðu sendir frá Reykjanesbæ til að taka þátt í þessari árlegu ráðstefnu.

Brynja Ýr Júlíusdóttir þakkaði bæjarstjórn fyrir allan þann stuðning sem ráðinu hefur verið sýndur. Brynja Ýr nefndi sérstaklega breytingar á strætókerfinu, íþróttadag, hvatagreiðslurnar og Ungmennagarðinn. Stefáni Bjarkasyni framkvæmdarstjóra ÍT sviðs voru færðar sérstakar þakkir fyrir mikla vinnu og nýjar hugmyndir í tengslum við Ungmennagarðinn og minningalundinn.

Brynja Ýr tók fram að aðsóknin í Ungmennagarðinn hefði farið fram úr björtustu vonum og virkilega gaman væri hversu mikið líf væri komið í garðinn. Brynja Ýr bað bæjarstjórnina um að íhuga í smá stund hvað þau væru búin að gera fyrir ungmennin og hvað þau væru þakklát.

Þuríður Birna Björnsdóttir Debes flutti sameiginlega ræðu hennar og Sóleyjar Þrastardóttur formanns Ungmennaráðs sem er stödd erlendis. Þuríður Birna hvatti bæjarstjórn til að fjölga trjám í Reykjanesbæ . Þuríður nefndi m.a. svæðið á bakvið Nesvelli og fyrir aftan íþróttasvæði Keflavíkur. Hún sagði að kjörið væri að ræða við Skógræktarfélag Íslands og biðja það um að koma með okkur í þetta átak.

Þuríður Birna kvaðst mjög áhugasöm um annan Skólahreystivöll og sagði að t.d. lóðin fyrir aftan íþróttahús Njarðvíkur hentaði vel undir slíkan völl.
Nýtt Ungmennaráð mun svo taka til starfa á hausti komandi og er fráfarandi ráði þakkað góð störf fyrir Reykjanesbæ.

Hafþór Birgisson