Ungmennaráð Reykjanesbæjar fundaði með bæjarstjórn Reykjanesbæjar

Þriðjudaginn 20.maí síðastliðinn hélt Ungmennaráð Reykjanesbæjar sameiginlegan fund með bæjarstjórn Reykjanesbæjar í Stapanum í Hljómahöll.
Fundurinn var seinni fundur ráðsins í ár með bæjarstjórn en ráðið fundar með bæjarstjórn tvisvar á ári.
Að þessu sinni var fundurinn með sérstökum formerkjum þar sem ráðið nýtti tækifærið til að afhenda bæjarstjórninni skýrslu sem unnin var úr niðurstöðum barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar 2025, sem Ungmennaráðið hélt í Stapa 3. apríl síðastliðinn.
Á fundinum var bleikt þema, sem var þemalitur þingsins, og fulltrúar ungmennaráðsins færðu bæjarstjórninni bleikar derhúfur með merkinu “Verum örugg,” sem var einmitt yfirskrift þingsins.
Á dagskrá fundarins voru erindi sem flutt voru af ungmennaráðinu og tengdust meðal annars netnotkun barna, umgengni í skólum, hvatagreiðslur og önnur mikilvæg málefni sem varða velferð og öryggi ungmenna.
Ungmennaráðið lagði áherslu á að koma að málum sem skipta máli fyrir börn og ungmenni í Reykjanesbæ og að þau séu hluti af ákvarðanatöku í samfélaginu. Skýrslan og niðurstöður hennar var sett upp og unnin af meðlimum ráðsins undir handleiðslu umsjónarmanna ráðsins.
Fundurinn markaði ákveðin tímamót í samstarfi ungmenna og stjórnvalda í Reykjanesbæ og var mikilvægur vettvangur fyrir ungmennin til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Þetta sýndi einnig fram á mikilvægi þess að hlusta á rödd ungs fólks og byggja samfélagið á traustum grundvelli þar sem þátttaka og samráð séu í fyrirrúmi.
Með þessu jókst skilningur og samstaða milli bæjarstjórnar og ungmennahópsins, sem stuðlar að betri ákvarðanatöku og lýðræðislegri þátttöku til framtíðar.
Bæklinginn má skoða hér að neðan.