Iðkendum hjá Teakwondodeild Keflavíkur fjölgaði eftir að íbúi af erlendu bergi settist í stjórn.
Iðkendum hjá Teakwondodeild Keflavíkur fjölgaði eftir að íbúi af erlendu bergi settist í stjórn.

Góður árangur hefur náðst í að fjölga börnum af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Vísbendingar voru um að þátttaka þeirra væri minni en íslenskra barna og því vildu forráðamenn íþrótta- og tómstundamála í Reykjanesbæ breyta. Á síðasta ári fjölgaði iðkendum af erlendum uppruna um rúmlega 40 og 12% aukning varð á notkun hvatagreiðsla hjá foreldrum erlendra barna. Um síðustu áramót hækkuðu hvatagreiðslur úr 28.000 krónum í 35.000.

Reykjanesbær hefur haft það að markmiði að taka vel á móti íbúum af erlendum uppruna. Liður í því var að ráða verkefnastjóra fjölmenningar til starfa árið 2018. Þann 13. janúar nk. munu Maciek Baginski og Filoretta Osmani, sem bæði eru íbúar í Reykjanesbæ og hafa góða reynslu af íþróttaiðkun, heimsækja nemendur í Myllubakkaskóla og Háaleitisskóla. Þar munu þau fræða börn í 3. - 6. bekk um hversu mikilvæg þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi er í að aðlagast samfélaginu, eignast vini og tileinka sér hollari lífshætti.

Fyrir nokkru fór starfsfólk á fræðslusviði og velferðarsviði í markvisst átak í að fjölga börnum af erlendum uppruna í íþrótta- og tómstundastarfi. Anna Hulda Einarsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir frá foreldrafélagi grunnskólanna í Reykjanesbæ, FFGÍR voru fengnar til að leiða verkefnið. Að sögn Hafþórs Birgissonar íþrótta- og tómstundafulltrúa var m.a. boðið upp á erindi frá Jóni Halldórssyni hjá KVAN um mikilvægi þess að taka vel á móti öllum í íþrótta- og tómstundastarfi. 

„Það er gaman að segja frá því að það á fá íbúa af erlendum uppruna inn í stjórnir hefur hjálpað mikið. Mjög góð reynsla hlaust af því að fá íbúa  af pólskum uppruna í stjórn Taekwondodeildarinnar. Í framhaldi komu fleiri börn af erlendum uppruna inn í deildina,“ segir Hafþór. 

Erindi Maciek og FIlorettu er lokapunktur í vinnu sem fram hefur verið undir kjörorðinu „Vertu memm“ en Hafþór segir ekki ljóst hvert framhaldið verði. „Ég get þó sagt að þetta er verkefni sem lýkur aldrei. Við höfum bara ekki tekið ákvörðun um hvað tekur við."