Úrslit Gettu betur í Hljómahöll

Úrslit Gettu betur fara fram í Hljómahöll föstudagskvöldið 17. mars

Úrslitakvöld Gettu betur spurningakeppninnar verður haldin í Stapa í Hljómahöll næstkomandi föstudagskvöld og verður send þaðan út í beinni útsendingu á RÚV þegar lið FSu og Menntaskólans í Reykjavík mætast. Gettu betur spurningakeppnin er einn vinsælasti dagskrárliður RÚV frá upphafi en keppnin á sér langa sögu og var fyrst haldin árið 1986.

Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1986 sem FSu kemst í úrslit Gettu betur en skólinn er fyrsti sigurvegari keppninnar. Í úrslitunum 1986 hafði skólinn betur gegn FB. Gettu betur lið FSu í ár skipa þau Ásrún Aldís Hreinsdóttir, Elín Karlsdóttir og Heimir Árni Erlendsson.

Menntaskólinn í Reykjavík á möguleika á því að vinna Gettu betur í 23. sinn en enginn skóli hefur unnið keppnina jafn oft. Gettu betur lið MR í ár skipa þau Katla Ólafsdóttir, Steinþór Snær Hálfdánarson og Davíð Birgisson.

Dómarar og spurningahöfundar Gettu betur eru Jóhann Alfreð Kristinsson, Laufey Haraldsdóttir og Helga Margrét Höskuldsdóttir. Spyrill er Kristjana Arnarsdóttir.

Úrslitin verða sýnd í beinni útsendingu kl. 20:00 á RÚV. Við hvetjum alla til að horfa.