Vaxtarsamningur Suðurnesja kynntur

Atvinnuþróunarráð Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Iðnaðarráðuneytið kynnir nú vaxtasamning sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins á Suðurnesjum og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.

Leiðir að þessum markmiðum eru m.a.:

1. Efla samstarf fyrirtækja, háskóla og opinberra stofnana um þróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins.
2. Þróa og efla klasasamstarf vaxtargreina svæðisins og efla svæðisbundna sérþekkingu á vel skilgreindum styrkleikasviðum.
3. Fjölga samkeppnishæfum fyrirtækjum og störfum og efla framboð á vörum og þjónustu.
4. Stuðla að útflutningi vöru og þjónustu og gjaldeyrisskapandi starfsemi.
5. Nýta möguleika sem skapast með aðild að alþjóðlegum verkefnum.
6. Laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu.

Áhersla verður lögð á uppbyggingu á sviðum sem svæðið telur til styrkleika sinna. Uppbygging klasa, þ.e.a.s. þrír eða fleiri samstarfsaðilar, sveitarfélög og stofnanir, mynda klasa m.a. á sviði flugs og öryggis, heilsu, tækni og orku, sjávarútvegs og matvæla eða menningar og ferðaþjónustu. Samstarfsaðilar þurfa allir að hafa hag af því að árangur náist með samstarfinu.

Með þessum samningi skapast tækifæri fyrir þá aðila á Suðurnesjum sem hafa hugmyndir að nýsköpunarverkefnum, til að mynda klasa um þróun verkefna.

Þar sem vaxtarsamningurinn er nýtilkominn hér á Suðurnesjum er hugmyndafræðin á bak við uppbyggingu klasa því ekki vel þekkt hér á svæðinu. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum mun halda fundi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum, þar sem hugmyndafræðin verður kynnt. Gert er ráð fyrir að auglýst verði eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum í október.

Kynningarfundir verða sem hér segir:

Reykjanesbær: Mánudaginn 13. september kl. 18-19 í Bíósal Duushúsa.

Garður/Sandgerði: Miðvikudaginn 15. september kl. 18-19 á veitingastaðnum Flösinni.

Grindavík: Fimmtudaginn 16. september kl. 18-19 í Saltfisksetrinu.

Vogar: Mánudaginn 20. september kl. 18-19 í Álfagerði.

Frummælandi á fundunum verður Elvar Knútur Valsson frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Á fundum í Grindavík verður lögð sérstök áhersla á klasauppbyggingu í sjávarútvegi. Gestur á þeim fundi verður Neil Shiran K. Þórisson frá Þróunarfélagi Vestfjarða.