Fimm stigahæstu vefirnir eftir úttekt. Sjá má að mjótt er á munum.
Fimm stigahæstu vefirnir eftir úttekt. Sjá má að mjótt er á munum.

Vefir Reykjanesbæjar, Akureyrar, Reykjavíkurborgar, Fljótsdalshéraðs og Kópavogs þykja bestu vefir íslenskra sveitarfélaga, en vefir Neytendastofu, Háskóla Íslands, Þjóðskrár Íslands, Stjórnarráðsins og Ríkisskattstjóra bestu ríkisvefirnir. Mjótt er á munum  þegar allir viðmótsþættir hafa verið skoðaðir, s.s. upplýsingagjöf, þjónusta, þátttaka og aðgengi. Þriggja manna dómnefnd útnefndi vef Reykjavíkurborgar besta sveitarfélagavefinn og vef Stjórnarráðs Íslands besta ríkisvefinn. Báðir vefirnir voru opnaðir í núverandi mynd á þessu ári.

Úttekt á vefjum íslenskra sveitarfélaga, ríkisstofnana, vefjum opinberra hlutafélaga og annarra fyrirtækja undir yfirskriftinni Hvað er spunnið í opinbera vefi? fer fram annað hvert ár. Úttekt gera Sjá viðmótsprófanir ehf. og Svavar Ingi Hermannsson öryggissérfræðingur. Niðurstöður voru kynntar á UT degi Ský, Skýrslutæknifélags Íslands, sem fram fór á Grand Hótel í gær. 

Í dómnefnd sátu Marta Kristín Lárusdóttir lektor í Háskólanum í Reykjavík, Tinni Sveinsson þróunarstjóri 365 og Margrét Kristín Sigurðardóttir forstöðumaður almannatengsla hjá Samtökum iðnaðarins. Þau fá einungis upplýsingar um hverjir stigahæstu vefirnir eru og útnefna þann besta eftir reynslu af notkun.