Velheppnuð hátíðarhöld

Fjallkonan og fylgdarsveinn, ásamt fánaberum.
Fjallkonan og fylgdarsveinn, ásamt fánaberum.

Hátíðarhöldin í Reykjanesbæ á 17. júní gengu vel þrátt fyrir kalsa veður og stór hópur bæjarbúa naut dagskrárinnar, ýmist sem þátttakendur eða skemmtikraftar.  Hátíðarhald bæjarins hefur verið í endurskoðun þessi misserin og sú nýbreytni var reynd í ár að lengja dagskrána að deginum en sleppa kvölddagskrá.  Fjallkona var Berglind Gréta Kristjánsdóttir, nýstúdent úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja og naut hún fylgdar skátanna að venju. Ræðumaður dagsins, Helena Dögg Magnúsdóttir,  kom að þessu sinni úr hópi sjálfboðaliðasamtaka, Hjálparsveitarinnar Suðurnes,  en árið 2011 er einmitt ár sjálfboðaliðans hjá Sameinuðu þjóðunum.  Fánahyllir var Gunnar Sveinsson og í skjali sem bæjarstjórinn, Árni Sigfússon  afhenti honum við þetta  tækifæri stóðu m.a. eftirfarandi orð: „Þú hefur á langri ævi lagt mikið til uppbyggingar atvinnulífs á Suðurnesjum.  Með skýra sýn að vopni hafðir þú forystu um að Kaupfélag Suðurnesja varð einn stærsti vinnuveitandi á svæðinu og einnig  léstu taka til þín í bæjarstjórn.  Sem formaður skólanefndar Fjölbrautaskólans  fyrsta áratuginn tókstu þátt í að hækka menntastig svæðisins svo um munaði og hefur nú stofnað styrktarsjóð fyrir námsmenn.  Þú ert einn þeirra einstaklinga sem hafa látið verulega til sína taka til bóta fyrir mannlíf hér á Suðurnesjum.“    

Menningarráð vill þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd 17. júní.